FÁVITAR – kynferðisleg áreitni

FÁVITAR – kynferðisleg áreitni

Ég hef áður skrifað um svipað málefni. En nú er mikið verið að ræða instagram reikning sem ber nafnið “favitar” (sem ég mæli með að allir skoði) svo mér finnst ég knúin til að skrifa meira um þetta þar sem sumir virðast ekki ná þessu og reyna enn að halda því fram að ekki allir karlmenn séu svona og ekki allir karlmenn hagi sér svona. Með því gera þeir lítið úr vandanum og okkar upplifun í leiðinni. Það sem karlmenn ættu að byrja á því að gera er að viðurkenna vandann. Auðvitað geta þeir ekki haft áhrif á alla karlmenn í heiminum í einu, en þeir geta haft áhrif á aðra karlmenn í sínu nærumhverfi. Og ef allir gerðu það myndi þetta á endanum ná til allra.

Allar konur sem ég þekki eða hef talað við einhverntímann á lífsleiðinni hfa orðið fyrir  kynferðislegri áreitni á einn eða annann hátt. Áreitnin getur verið mismunandi og ég er guðs lifandi fegin að ég er ekki 14 eða 15 ára í dag. Ég myndi ekki vilja vera ung stelpa að stíga sín fyrstu skref í lífinu og þurfa að upplifa stráka sem oft á tíðum vita lítið annað um kynlíf en það sem þeir sjá í klámi – og flest okkar vita að það er eins langt frá raunveruleikanum og það gerist.


Þetta voru góð skilaboð að vakna við.

Áreitnin getur verið að kunningar pabba segi mér þegar ég er varla unglingur að ég sé að verða “flott og alvöru vaxin kona og pabbi þurfi að fara að passa mig” meðan þeir halda áfram að segja klámbrandara og horfa í áttina að mér.
Hún getur verið það að þegar ég var í 8 bekk klipu strákar í klofið á mér og sögðu mér að ég væri ennþá stinn því að það væri ekki búið að ríða mér ennþá.
Hún getur verið það þegar miklu eldri strákur skrifaði í minningarbókina mína þegar ég var í 7 bekk að ég ætti “að hringja í hann þegar ég yrði 18”
Hún getur verið þegar stelpur eru niðrí bæ á skemmtistöðum og við erum snertar, eltar og smáaðar ef við segjum nei.
Hún getur verið þegar ég er að bíða í röð eftir klósettinu á 11-unni og einhver strákur labbar upp að mér og króar mig af útí horni, stendur alveg upp við mig og andar djúpt og þungt meðan hann horfir í augun á mér.
Hún getur verið typpamyndir á snapchat, eða óviðeigandi skilaboð um hvað karlmenn myndu gera við mig á instagram.

Kynferðisleg áreitni getur verið á endalaust marga vegu. Og mér finnst ég þurfa að þylja þetta upp aftur, og aðeins hærra fyrir fólkið aftast.

Auðvitað eru ekki allir karlmenn fávitar. En það eru nógu margir þannig að ég fæ alltaf sömu ógeðis stress tilfinninguna þegar ég sé skilaboð frá karlmönnum sem ég þekki ekki.
Auðvitað eru ekki allir karlmenn fávitar. En þeir eru nógu margir þannig að þegar ég er ein heima með börnin læsi ég öllu.
Auðvitað eru ekki allir karlmenn fávitar. En það eru nógu margir þannig að þegar ég fer niðrí bæ treysti ég mér ekki til að vera ein lengur.
Auðvitað eru ekki allir karlmenn fávitar. En það eru nógu margir þannig að ég hef alvarlega íhugað að ganga um með eitthvað til að vernda mig.
Auðvitað eru ekki allir karlmenn fávitar. En það eru nógu margir þannig að ég vill frekar gera ráð fyrir því að þeir séu það allir og vera þá aðeins öruggari.

Það eru auðvitað ekki allir karlmenn fávitar. En þeir eru nógu margir til að næstum hver einasta kona sem þú þekkir, mamma þín, amma, systir, frænka eða maki hefur lent í kynferðislegri áreitni. 

Hvað segir það þér?

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: