Fallegar myndabækur

Ég ákvað fyrir svolitlu síðan að búa til myndabækur með myndunum sem við höfum tekið af Fannari síðan hann fæddist en ég hafði þá velt fyrir mér í smá tíma hvernig best væri að varðveita myndirnar. Ég vissi að ég vildi búa til flott albúm, skrapbók eða einhverskonar myndabók handa honum og tók fljótt stefnuna á myndabók. Systir mín hefur verið dugleg að búa til myndabækur handa sínum börnum og benti mér á nokkrar góðar síður sem hún hefur verið að panta í gegnum og ákvað ég að nota síðuna www.bonusprint.co.uk. Ég var búin að prufa nokkrar aðrar síður en fannst þessi henta best fyrir hugmyndina sem ég var með í kollinum.

Forritið á Bonusprint er mjög auðvelt í notkun, þar getur maður raðað myndunum upp sjálfur, sett inn texta og bakgrunna. Ég bjó sjálf til mína bakgrunna þar sem að þeir sem til eru í kerfinu voru ekki alveg að passa við útlitið sem ég vildi hafa á bókinni.

Ég byrjaði að setja upp bókina síðasta sumar en það er alveg smá vinna að setja upp heilt ár af myndum, velja úr og raða upp. Ég kláraði ég uppsetninguna í lok október og endaði verkið í tveimur stórum bókum þar sem að ég gat ómögulega fækkað myndunum. Þegar ég var að vinna bækurnar þá datt mér í hug að gera líka bækur fyrir ömmurnar, en ákvað að búa til aðeins styttri útgáfu handa þeim, svona helstu myndirnar yfir árið til að gefa þeim í jólagjöf. Sú gjöf sló svo sannarlega í gegn – mæli með því ef þið eruð einhverntíman í vandræðum með gjafir handa ömmum og öfum 😉

Stefnan er að búa alltaf til eina bók á ári úr myndunum sem við tökum, en bækurnar eru svo fallegar og það fer miklu minna fyrir þeim en stóru albúmi.

Það sem er gott að hafa í huga ef maður ætlar að panta hjá Bonusprint er að þeir eru reglulega með mjög góða afslætti og þegar ég var tilbúin með mína bók beið ég eftir afsláttartímabili og sendi bókina í prentun þá og fékk 40% afslátt á alla sendinguna. Bækurnar voru ekki lengi á leiðinni til landsins en þær stoppuðu í tollinum og þurfti ég að borga smá af þeim.
Nú er bara að byrja á næstu bók 😉

 

HildurHlín

 

Author Profile

Hildur Hlín

Hildur Hlín er 35 ára móðir í Reykjanesbæ. Hún er margmiðlunarhönnuður og naglafræðingur og hefur brennandi áhuga á hönnun, handverki, nöglum, tísku og lífsstíl sem og móðurhlutverkinu og öllu sem því tengist. Hún á einn dekurmola, hann Fannar Mána sem er fæddur í október 2015.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *