Ég braut 6 mánaða fataverslunar föstuna mína

Ég braut 6 mánaða fataverslunar föstuna mína

Nú kemur loksins að því að skrifa loka færsluna um 6 mánaða fataverslunar föstuna. Hér má lesa af hverju ég hóf föstuna og hér er færsla frá því þegar ég var hálfnuð með hana.

Fyrstu 3 mánuðirnir voru klárlega erfiðastir en eftir að þeim lauk hugsaði ég varla um það að versla föt lengur. Seinni hluti föstunnar gekk því eins og í sögu og leið mér afskaplega vel..en ég braut hana þegar ég var búin með 5 mánuði!

Ég komst að því í seinni hluta maí að ég væri komin 6 vikur á leið með litla baun, og í fyrstu var ég hörð á því að klára föstuna mína. Það reyndist mér erfiðara en ég hélt enda fyrsta barn okkar Bigga og margt sem ég á eftir ólært. Ég tók alls ekki með í reikninginn, enda er þetta atriði mjög einstaklingsbundið, að það fór að sjást mjög snemma á mér. Ég gat ekki rennt upp gallabuxunum mínum á 7.viku og þótti mér “teygju trikkið” mjög óþægilegt.

Bumba á ferð um landið

Ég var ekki tilbúin til þess að segja vinkonum mínum strax frá í von um að fá lánaðar stærri buxur og ég átti erfitt með að finna notaðar meðgönguflíkur. Ég gaf því undan og keypti mér GOTS vottaðar meðgönguleggings og gallabuxur í LINDEX ásamt nokkrum notuðum síðum og víðum bolum í Trendport. Fljótlega þegar föstunni lauk verslaði ég mér einnig nærföt en ekki leið á löngu þar til mér fannst næstum allar nærbuxurnar mínar óþægilegar og bjargaði Boody vörumerkið og Lindex mér þar. Boody vörumerkið selur nærfatnað, íþróttafatnað og boli úr mjúku bambus efni sem fæst í mörgum apótekum. Ég get vel skilið að ekki allir verði sammála mér að hafa brotið föstuna og mögulega hefði ég getað rembst við að klára hana og mætt bara á íþróttabuxunum í vinnuna alla daga en ég sé ekki eftir neinu.

Í dag er ég komin 14 vikur á leið og ég verð að viðurkenna að ég varð svolítið hissa hvað það varð fljótt strembið að klæða sig. Ég bjóst alveg við því að það yrði það þegar lengra líður á meðgönguna og er þetta eflaust einnig misjafnt eftir hverri og einni manneskju. Minn stíll einkennist mikið af uppháum gallabuxum og skyrtum og bolum sem eru alveg eða hálf girt í buxurnar.

Þegar það virkaði ekki lengur varð ég svolítið óviss með það hvernig ég ætti að klæða mig án þess að versla mikið nýtt og án þess að tapa mínum eigin fatastíl (ég veit að þetta hljómar eflaust furðulega fyrir mörgum en ég tjái mig mikið með fatastíl mínum og hef gífurlegan áhuga og gaman af tísku).

Ég er því að vinna í því hægt og rólega að aðlaga fatastíl minn og hvernig ég klæði mig án þess að missa sjónar á því hver “ég” er og hvernig mér líður best.

Þetta þýðir auðvitað ekki að ég hafi verslað heilan helling en ég er búin að kaupa nokkrar lykil flíkur og hef nokkrar aðrar í huga sem ættu vonandi að duga mér út meðgönguna og henta í brjóstagjöfinni (ef ég verð svo heppin að geta gefið brjóst).

Ég mun gera aðra færslu síðar meir um þau vörumerki sem ég fjárfesti í sem hafa reynst mér vel en eins og áður þá legg ég upp úr því að vanda valið. Ég hef því og mun halda áfram að versla sanngjarnar og umhverfisvænar flíkur ef ég hef kost á því og er að kaupa nýtt. Sama á við um bumbubaunina en það verður reynt að velja sem mest af sanngjörnum og umhverfisvænum vörumerkjum þegar verslað er nýtt en einnig töluvert af notuðum flíkum (Barnaloppan er að gera svo góða hluti!).

Ég veit að færslan og fataverslunar fastan tók heldur betur U-beygju hjá mér en ég mæli samt sem áður gífurlega með því að prófa svona föstu. Ég lærði ótrúlega mikið af henni, hafði lúmskt gaman af henni og er ég viss um að ég væri búin að kaupa töluvert meira af flíkum á mig ef ekki hefði verið fyrir föstuna seinustu mánuði. Ég held einnig að fastan og þær æfingar sem ég prófaði (eins og 10×10 áskoranirnar) munu einnig hjálpa þegar líður á meðgönguna og grynnka fer verulega í fata úrvalinu hjá mér.

Við litla fjölskyldan bíðum spennt eftir bumbubaun og munu outfit færslurnar á instagram hefjast aftur með reglulegum hætti svo endilega kíkið þangað ef þið viljið fylgjast með og fá hugmyndir. Ég er farin að hafa meiri orku og betri matarlyst og er því orðin töluvert duglegri að nota insta story aftur.

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments

Share: