Download Festival

Download Festival

Þann 28-30 júní ætlum við Tryggvi að skella okkur á Download festival í Madrid! Download festival hefur verið haldin árlega síðan 2003 í Donington Park á Englandi en þetta er þriðja árið sem hátíðin er haldin í Madrid. Hvorugt okkar hefur farið á svona hátíð áður (Og Tryggvi hefur bara aldrei farið til Spánar yfir höfuð, verður held ég mest spennandi að sjá hvernig hann plummar sig í hitanum en 12 gráður og sól hér á Íslandi og maðurinn skaðbrennur!) svo við erum um það bil að fara yfir um af spenningi. Það eru líka komin 13 ár síðan ég skellti mér síðast til Spánar (og það var til Torrevieja og Alicante) svo þetta verður nýtt, spennandi og alveg pottþétt frábært!

Við ákváðum frekar að fara til Madrid en Donington Park þar sem að tónleikarnir í Englandi eru akkúrat yfir afmælið hennar Huldu Maríu. Það tók okkur alveg smá tíma að ákveða á hvaða hátíð við myndum fara á þar sem flestar hátíðinar sem við skoðuðum lenda á annaðhvort á afmælinu hennar Huldu eða Hólmgeirs og við viljum vera með þeim á afmælunum þeirra. Plús, Madrid, sól, Slipknot og Gin hljómar bara þó nokkuð vel (það verður sérstakur Gordon’s gin bar á VIP svæðinu, ég hætti að drekka fyrir nokkrum mánuðum – sjáum hvernig það gengur í kringum þennann bar).

Við keyptum VIP passa, en aðal ástæðan fyrir því að við erum yfir höfuð að fara á tónlistarhátíð í sumar er sú að Tryggvi hreinlega verður að sjá Slipknot og VIP passar tryggja að Tryggvi (haha) kemst eins nálægt þeim og hann mögulega getur (ef hann mætti ráða myndi hann líklega sleikja hárið á Corey Taylor og strjúka á honum hárið en ok). Þetta hefur verið uppáhalds hljómsveitin hans síðan 2001 og er eitt af því sem hann vill strika yfir á Bucket listanum sínum svo við gátum ekki sleppt þessu tækifæri. Með VIP passanum fylgir aðgangur alla dagana, forgangs aðgangur á svæðið og aðgangur að fremsta sviðinu eins og ég minntist á áðan. Einnig fylgir aðgangur að sérstökum VIP bar með ódýrari drykkjum og gjafapakki með gjafavörum sérstaklega hönnuðum fyrir viðurðinn, aðgangsmiði til minningar um viðburðinn og fleira. Einnig er sérstakt starfsfólk á VIP svæðinu sem er eingöngu þar fyrir öryggi og aðstoð gestana á svæðinu.

Hljómsveitirnar sem spila eru meðal annars Slipknot, Tool, Scorpions, Papa Roach, Three Days Grace og margar fleiri en það eru bara nokkur bönd þarna sem við viljum sjá. Vildum ekki byrja á of stórri hátíð (eins og þessi sé ekki nógu stór..) með of mörgum hljómsveitum svo við værum ekki stöðugt hlaupandi á milli sviða að reyna að sjá þær allar. Við erum klárlega ekki í nógu góðu formi til að vera að hlaupa endalaust – hvað þá í hita og sól.

Flugið okkar út er þann 26 júni og við förum heim 3 júlí (minnir mig ég man ekkert, ever) sem gefur okkur góðan tíma til að slaka á fyrir og eftir tónleika og skoða okkur um í borginni, sem er bara nákvæmlega það sem við þurfum eftir veturinn. Við ætluðum alltaf að panta flugið um leið og við keyptum miðana sem var í febrúar síðastliðinn. Svo frestaðist það alltaf og við erum eiginlega bara fegin þar sem við ætluðum að kaupa með WOW air. Við enduðum á að finna beint flug á 100þúsund ca með Norwegian Air núna fyrir ekkert svo löngu síðan en það var bara frekar vel sloppið miðað við það sem við vorum búin að skoða uppá verðin að gera.

Við pöntuðum líka fínasta hótel meðan við erum úti sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað heitir eða hvað það kostaði en ég man að það var alls ekki dýrt. EN auka atriði – við þurfum eiginlega bara stað til að sofa á, efast um að við verðum mikið að hanga uppá hóteli því ef ég þekki okkur rétt verðum við ráfandi um í hitanum að kanna borgina. Ég hef verið að fara yfir nokkra hluti sem við viljum sjá og er búin að gera smá lista af “must see” hlutum, en okkur finnst samt mest spennandi að labba bara um og helst villast, þannig finnur maður oftast flottustu staðina.

Það eru bara 29 dagar í að við fljúgum út og byrjum þetta ævintýri! Bring it on! Þið getið svo auðvitað fylgst með á Instagramminu mínu.

Þangað til næst.


Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: