DIY – Krakkaföndur #1

 

screen-shot-2016-09-29-at-1-06-32-am

Við Hólmgeir Logi höfum gríðarlega gaman af því að föndra. Við getum eytt endalausum tíma í að lita, leira (okey mér finnst reyndar ekki gaman að leira, finnst tilfinningin við að snerta leir hálf ógeðfelld en hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín) og búa til allskonar hluti. Það er nefnilega ótrúlega gaman að sjá hvað börn eru flink, maður gefur börnum oft ekki það kredit sem þau eiga skilið.

Þar sem að ég er í fæðingarorlofi ákvað ég að Hólmgeir yrði bara á leikskólanum eftir hádegi þar til fæðingarorlofið mitt klárast, þá fæ ég meiri tíma með honum og eins mikið og ég þrái að vera ein með sjálfri mér studum – þá fæ ég samt ekki nóg af því að vera með honum. (Þetta er hræðilegt, þið hljótið að kannast við þetta – börnin gera mann geðveik og gráhærð og það eina sem maður getur hugsað um er að komast í burtu, en um leið og það gerist vill maður bara fá þau aftur og knúsa þau!)

Þar sem að föndur og innivera er yfirleitt fyrir hádegi og útivera eftir hádegi á leikskólanum er ég búin að finna helling af skemmtilegu föndri fyrir okkur Hólmgeir að gera saman fram að áramótum. Við ætlum að hafa þemavikur og það sem varð fyrir valinu núna eru litir og dagarnir. Hólmgeir kann alveg dagana – en hann á erfitt með að raða þeim í rétta röð, hvaða dagur kemur á eftir hvaða degi eða hvaða dagur var á undan þessum degi og litirnir eru bara skemmtilegir.

Við föndrum mikið bara úr því sem er til heima, ég fer ekkert endilega útí búð og kaupi föndurdót. Hitt er miklu skemmtilegra finnst okkur, þá þurfum við líka að hafa fyrir því að leita að því.

Það sem við gerðum núna voru lítil spjöld, öll mismunandi á litin og ég skrifaði dagana framan á það. Hólmgeir á svo korktöflu inni hjá sér sem ég get hengt spjald með viðeigandi degi á hvern morgun.

Það sem við notuðum;
– A4 blöð, frábært ef þú átt þykk en þunn venjuleg duga alveg.
– Tússlitir og Artliner penni
– Skæri
– Breitt límband

instasquare_201692714285839.jpg

Ég byrjaði á því að klippa niður 7 búta, einn fyrir hvern dag. Venjulegir ferkantaðir duguðu okkur bara vel. Svo fékk Hólmgeir að velja hvaða dagur yrði hvernig á litinn, það eina sem ég stjórnaðist í hvað þetta varaðaði var að hann veldi ekki of dökka liti svo ég gæti skrifað dagana framan á.

 

Og þá byrjaði gamanið, að lita. Og ekki vanda sig að lita inní línur í litabók heldur bara .. krassa! Hann entist í svona 15 mínútur í fyrstu atrennu, fór og brasaði annað og kom svo aftur og entist í svona 10 mínútur, hljóp þá nokkra hringi með hundunum og kom svo og kláraði. Svoleiðis er þetta yfirleitt eins og við má búast af litlum aktívum 4 ára gutta.
instasquare_2016927142913780
Þegar búið var að lita alla dagana réttum litum tók við að plasta pappírinn, og þar sem ég bý ekki svo vel að eiga plöstunarvél notaði ég bara breitt límband, límdi yfir báðum megin og klippti svo í kringum. Hólmgeir fannst límbandið einstaklega spennandi eins og sést á hægra horninu hérna á myndinni fyrir ofan. Við límdum nefin á okkur upp og hann setti límband í hárið á mér (ég þakkaði einhverjum æðri mætti fyrir að vera ekki með meira hár en raun ber vitni þar sem hann virkilega ýtti límbandinu í hárið á mér – takk Hólmgeir!) en á endanum hafðist þetta allt saman.

instasquare_201692714293111.jpg

Við erum ofboðslega ánægð með enda útkomuna, þó mér finnist ég skrifa eins og jarðskjálftamælir er þetta fallegasta skrift í heimi fyrir Hólmgeir, og hann benti stoltur á L stafinn sinn á Laugardagsmiðanum og það er það eina sem skiptir máli – að hann hafi gaman af þessu, já og vonandi læri að fimmtudagur er ekki á eftir mánudegi.

Þangað til næst!

ingibjorg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *