Burðarpokar – mikilvægi þess að velja rétt

Núna í sumar tók ég sérstaklega mikið eftir því að sífellt fleiri notuðust við burðarpoka í ferðalögunum sínum. Mér finnst það frábært, þetta er svo þægilegur hlutur, geta skellt barninu bara á bakið á sér eða framan á og rölt af stað, já eða eins og hjá sumum – sett loksins í þvottavél! Hins vegar tók ég líka eftir því að sumir voru að nota poka sem hentuðu sér eða barninu kannski engan veginn, pokar sem vísuðu fram og þar eftir götunum.

Við val á burðarpoka skiptir höfuð máli að kynna sér hlutina. Kynna sér hvaða pokar henta ykkur og eru bestir fyrir barnið. Við erum jú öll mismunandi – það sem hentar mér hentar ekkert endilega næsta manni. Stuttu eftir að Hólmgeir fæddist fékk ég að láni burðarpoka til að nota í réttum svo ég þyrfti nú ekki að halda á bílstólnum eða barninu sjálfu allann tímann. Þetta var einhver Baby Björn poki og ég hugsaði mér að þetta yrði nú aldeilis fínt, hann gæti bara sofið (sem hann svo gerði) í gegnum réttirnar og ég þyrfti sko ekki að halda á honum. Þetta yrði bara snilld. Svo eftir réttirnar fór ég nú að skoða, við yrðum að eignast svona grip. Ég skráði mig í hóp á facebook sem heitir “Burðarpokaspjall” (Mæli eindregið með því fyrir þá sem vantar hjálp eða fróðleik varðandi burðarpoka) og fór aðeins að kanna þetta. Þá komst ég að því að burðarpokarnir frá Baby Björn eru bara alls ekkert svona mikil snilld eins og mér fannst og 4 árum seinna er ég ennþá með móral yfir því að hafa notað þennann poka. Þetta snérist ekki bara um “eitthvað” til að halda barninu uppi svo þú gætir haft hendurnar lausar. Líkamsstaða barnsins skiptir gríðarlega miklu máli en við notkun poka sambærilega við Baby björn er ekki rétt álag á líkama barnsins. Lappirnar hanga niður og er allt of mikið álag á ákveðið svæði hjá börnunum þegar að í raun eiga börnin að sitja í “M-i”. Á þessari mynd sést hvernig börn sitja í sambærilegum pokum við Baby Björn og hvernig börn eiga að sitja.

14211951_10154552234482236_6010383651675697288_n

Hér sjáiði að álagið er ekki rétt á fyrri myndinni og getur skapað vandamál seinna meir.
En líkamsstaða barnsins er ekki það eina sem skiptir máli, heldur líka okkar. Að velja burðarpoka sem dreifir þunganum svo þetta sé sem þægilegast fyrir okkur sem berum barnið.

Árið 2013 keypti ég svo fyrsta burðarpokann okkar Hólmgeirs Loga. Ég pantaði Boba3g hjá Hönd í Hönd og þá kostaði hann einhverjar 20-22.000 krónur ef ég man rétt. (Boba 3g fæst ekki lengur hjá Hönd í hönd en nýrri útgáfuna af Boba pokum eða Boba 4g má sjá hér á 22.900kr.- fyrir þær sem vilja skoða)

Ég hafði sjaldan verið jafn spennt að prófa nokkurn hlut og við Hólmgeir skelltum okkur í göngutúr um leið og djásnið mætti. Þetta var eins og heill heimur hefði opnast af möguleikum fyrir okkur og guð minn góður hvað ég vildi að ég hefði gert þetta fyrr, þessi poki hefði nefnilega hjálpað mér alveg hrikalega mikið á kveisutímabilinu hans Hólmgeirs. En, eftir á að hyggja var ég bara heppin að þessi poki hentaði okkur fullkomlega því ég hafði ekkert mikið pælt í því að mismunandi pokar henta mismunandi fólki og börnum. Það eina sem ég hafði pælt í var að ég vildi ekki að barnið héngi í pokanum heldur sæti í þessari “M” stellingu.

Það eru til margar af burðarpokum en þeir sem ég man eftir í augnablikinu og eru hvað vinsælastir eru Manduca, Boba og Tula (allir fáanlegir hjá Hönd Í hönd) og Ergo. Einnig eru til svokölluð burðarsjöl sem henta sumum betur. Ef þið eruð í burðarpokahugleiðingum yfir höfuð legg ég til að þið mátið áður en þið kaupið, uppá stillingar og stellingar.

Þegar ég var að vinna þessa grein spurði ég snillingana á burðarpokaspjallinu hvað þær leituðust helst eftir við góða burðarpoka. Flestar voru þær sammála um að breiðir og bólstraðir strappar væru alveg málið til að geta notað hann eftir því sem barnið eldist og þyngist. Sem passar alveg við mína upplifun þar sem að eftir að ég keypti Boba pokann minn notuðum við hann ENDALAUST! Ég átti ekki bíl á tímabili og þurfti mikið að nota strætó til að komast með Hólmgeir til dagmömmu og ég sjálf í skólann og notaði burðarpokann í hvert einasta skipti. Við fórum í göngutúra uppá “fjall” (fyrir áhugasama labbaði ég uppá Hlíðina í Mývatnssveit með hann á bakinu og fyrir eymingjanum mér er það fjall) og ég meiraðsegja notaði hann heima þegar Hólmgeir þurfti að láta halda á sér en 2 daga ósamanbrotni þvotturinn hreinlega gat ekki beðið lengur. Sumarið 2015, þegar Hólmgeir var 3 ára gamall hætti ég loksins að nota burðarpokann, og það var ekki því ég vildi það. Ég fann ekki einu sinni fyrir því að hafa hann á bakinu – nei hann vildi bara labba sjálfur.

1238999_10152279263249885_554974741_n.jpg

Þess má til gamans geta að ég er enn að nota þennann sama burðarpoka, bara núna fyrir Huldu Maríu. Í réttunum sem við fórum í um daginn var ég með hana í pokanum og hún steinsvaf alveg eins og bróðir sinn (sem síðar í réttunum fékk að prófa pokann aftur, 4 ára og 105cm og hann passar ennþá í hann!) fyrir sléttum 4 árum síðan – en núna vorum við með réttann poka. Hægt er að fá sérstök ungbarnainnlegg í burðarpoka til að nota þá frá fæðingu en ég átti ekki svoleiðis og sá fram á að geta ekki notað þennann poka eða þurfa að kaupa innlegg – svo benti góð vinkona mín mér á að það er hægt að smella þeim upp og breyta ólunum aðeins svo við höfum núna verið að nota pokann í um það bil mánuð og þar sem Hulda María er ekki mikið gefin fyrir svefn er þetta allgjör snilld.

Svona að lokum eru hér nokkur góð tips (á ensku reyndar) til að hafa í huga við notkun burðarpoka.

11262379_10153344658389479_5361004563945394721_n.jpg

Vonandi hjálpar þetta einhverjum. Þangað til næst.

undirskrift

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *