Brjóstagjöf – okkar reynsla.

Núna 1 – 7 ágúst var alþjóðlega brjóstagjafavikan og í tilefni af því langar mig að segja ykkur frá minni reynslu af brjóstagjöf.

Þetta er eingöngu mín reynsla sem mig langar til að deila með ykkur, þetta getur eins og allt annað verið mismunandi eftir konum og börnum. En hver veit, kannski nýtist þetta einhverri. Ég veit allavegana að ég hefði viljað að einhver settist bara niður með mér og segði mér frá brjóstagjöf þegar ég varð ólétt af Hólmgeir Loga.

Eins og flestar frumbyrjur vissi ég ekki hvað ég var að fara útí með brjóstagjöfina þegar Hólmgeir fæddist. Ég var lítið sem ekkert búin að lesa eða kynna mér brjóstagjöf og ég í einfeldni minni hélt að barnið myndi bara vera sett á brjóstið, drekka fylli sína og svo yrði það bara svoleiðis. Ég fékk það heldur betur í bakið á fyrstu vikunum sem Hólmgeir var til. Vegna þess að hann fæddist aðeins 1870gr þurfti ég (samkvæmt ljósmæðrum og læknum) að vekja hann á 3 tíma fresti fyrstu 6 vikur lífs hans meðan hann var að þyngjast. Það voru mistök númer 1. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sumar mæður þurfa að gera það af einhverjum ástæðum en fyrir mig, ég hefði ekki átt að gera það svona lengi. Það að vekja hann gat tekið hálftíma, stundum lengur – það að gefa honum að borða tók svipað langann tíma, svo voru bleyju skipti, fataskipti þar sem að oftast ældi hann öllu og svona hélt þetta áfram. Þetta orsakaði það að ég svaf lítið sem ekkert á milli gjafa og ég var orðin svo þreytt að ég þorði varla að sofa, ég svaf á sófanum í stofunni sitjandi megnið af þessum 6 vikum því ég var svo hrædd um að vera orðin það þreytt að ég myndi ekki vakna við barnið, getið ímyndað ykkur hvernig það fór með andlegu hliðina. Fyrstu vikurnar gekk þetta þó allt í lagi, allavegana svona í minningunni – ég held eftir á að hyggja að ég hafi bara verið í móki og að taka þetta á þrjóskunni.  Svo fékk ég brjóstastíflu. Ég vissi ekkert hvað var að gerast, fann bara fyrir eymslum í vinstra brjóstinu, var orðin rauðskellótt og ég var sárkvalin. Einn daginn vaknaði ég með hita og óráð og grét bara úr sársauka. Hafði ég þá samband við ljósmóðir sem sagði mér að prófa að breyta um stellingu á barninu meðan ég var að gefa og nudda rauðu blettina í áttina að geirvörtunni meðan barnið drakk, ef það virkaði ekki gæti ég prófað að láta þáverandi manninn minn að sjúga stífluna úr þar sem að strákurinn var svo lítill að hann gat það ekki (já það er thing – grínlaust), en ef ekkert virkaði skildi ég koma uppá deild og fá hjálp. Ég kom alveg að fjöllum og fór strax í þann gír að ég væri hræðileg mamma og gæti ekki einu sinni gefið barninu mínu að borða rétt, ég væri að klúðra einhverju sem væri að valda þessu. Nei, ég var ekki að klúðra neinu. Ég bara vissi ekki og kunni ekki að ráða úr þessu. Þarna endaði ég uppá deild með hjúkku að nudda brjóstin á mér með laxerolíu og stíflan losnaði á endnum. Ég var þó heppin að fá ekki blússandi sýkingu en ég man að nokkrar á þessum tíma sem ég vissi af enduðu á sýklalyfjum útaf sýkingum.

FB_IMG_1470577494726

Eftir þetta byrjaði að halla undan fæti, svefnleysið, stressið og mín eigin vanlíðan byrjaði að taka sinn toll og mér fannst mjólkin vera að minnka og fannst Hólmgeir einhvern veginn alltaf órólegur og alltaf svangur. Ég er líka þannig af guði gerð að ef mér líður illa borða ég ekki né hugsa um sjálfa mig, ég frekar velti mér uppúr eigin vanlíðan eins og dramadrottningin sem ég er. Það hjálpaði heldur ekki að heyra stöðugt að ég þyrfti að fara að gefa honum ábót, ég væri ekki að mjólka nóg og allt mögulegt. Stressið var orðið allt of mikið og kvíðinn við að vera ekki nógu góð var yfirþyrmandi. Ég gafst á endanum upp og snéri mér að pelum eftir (að mínu mati) alltof fáa mánuði af brjóstagjöf.

Eftir að Hólmgeir var löngu hættur á brjósti fékk ég loksins áhuga á brjóstagjöf, samt var ekkert á döfinni að eiga fleiri börn (hahahaha lífið er svo skondið á þennann hátt, ég ætlaði sko aldrei að eiga fleiri börn!). Mér fannst bara brjóstagjöf spennandi og merkilegur hlutur þó ég hafi átt svona slæma reynslu, og kannski þess vegna sem áhuginn kviknaði. Ég byrjaði að lesa mér til og komst að því að ég hefði ekki þurft að gefast upp með Hólmgeir. Staðreyndin er sú að með réttu mataræði, andlegum stuðning og góðum svefn hefði ég getað haft hann mun lengur á brjósti en úr varð. Ég gerði heimildarritgerð um þetta í skólanum, horfði á heimildarmyndir og talaði við brjóstagjafarráðgjafa og gremjan jókst bara í minn eigin garð, sjálfsásakanirnar byrjuðu – ég hefði átt að gera betur, reyna meira, ekki bara gefast upp.

FB_IMG_1470576745448

Þegar ég var ólétt aftur byrjaði ég strax að pæla í brjóstagjöfinni. Ég ákvað að gera mér ekki vonir um hvernig þetta myndi ganga núna. Eingöngu reyna mitt besta og setja mér bara lítil markmið í einu, ég á nefnilega svo frábæran afa sem er búinn að reyna að berja það inní hausinn á mér í mörg ár að setja mér markmið og taka svo hænuskref, ég þurfi ekki alltaf að stökkva langstökk með allt. Svo ég gerði það. Hulda María er 2 mánaða tæplega og enn gengur ekkert smá vel. Ég hef fundið að akkúrat rétt magn af vatni, fjölbreytt mataræði (hey ég borða samt ennþá allt ruslið sem ég borðaði fyrir, ég bætti bara inn berja smoothie í morgunmat í staðin fyrir 30 kaffibolla og grænmeti með kvöldmatnum og passa að borða allavegana lágmark 4x á dag), semi nægur svefn (en hver fær nægan svefn með ungabarn sem vaknar á lágmark 3 tíma fresti til að borða? ekki ég allavegana) og hellingur af andlegum stuðning gerir trikkið fyrir mig. Ég á yndislegan mann sem að er þvílíkt stuðningsríkur í sambandi við brjóstagjöfina og færir fyrir mig jörðina ef ég bið um það – allt svo að ég geti notið þessa tíma með dóttur okkar, eitthvað sem ég gerði aldrei með Hólmgeir. Ég fann ekki þessa fallegu tengingu sem myndast við brjóstagjöf, ég sá þetta bara sem verk sem ég þurfti að gera og var sársaukafullt ef eitthvað var. Tryggvi hefur aldrei þrýst á mig að gefa henni pela svo hann geti fengið sitt móment með henni eða leyft mér að sofa eins og svo margir pabbar gera. Og þó ég veit að þeir pabbar vilji bara vel hentar þetta okkur ekki (og verður oft til þess að börnin vilja frekar pela og getur gert brjóstagjöfina erfiðari og ég er bara ekki tilbúin að taka þann séns) Í staðin bjó hann bara til sín eigin móment með henni, hann hefur farið með hana í sturtu síðan hún fæddist til dæmis og þar njóta þau sín alveg í botn þar sem að hún er allgjör fiskur og veit fátt betra en að hanga í sturtunni, ég reyndi líka að fara með hana í sturtu en hún vildi bara borða mig, svo þetta virkar frábærlega fyrir okkur!

Þó að núna sé brjóstagjöfin búin að ganga ótrúlega vel er hún samt ekki búin að ganga áfallalaust. Mjólkin var alveg komin á degi 2 hjá mér og þegar að daman var 5 daga gömul kom í ljós að hún væri með of stutt tunguhaft. Það kom í ljós því ég fann að ég var að fá stíflu aftur, hún var semsagt búin að vera að drekka vitlaust. En þar sem ég hafði lent í þessu áður kunni ég að takast á við þetta og gat komið í veg fyrir að hún yrði jafn slæm og með Hólmgeir. Við tóku heitir og kaldrir bakstrar, endalaust af sturtum þar sem ég stóð og reyndi að nudda stífluna úr og á einum tímapunkti sat ég í sófanum með hana að drekka í fótboltastellingunni hægra megin og vinstra megin þar sem stíflan var setti ég frosna kjúklingabringu til að ég finndi ekki alveg jafn mikið til í brjóstinu. Sem betur fer var klippt á tunguhaftið hjá henni, stíflan nudduð úr og hefur ekki komið aftur síðan.

13680775_10154454499739885_4326624342606340775_n

Að vera með ungabarn á brjósti er full vinna og ekkert nema vinna meðan verið er að aðlaga sig að þessu. Ég þarf að passa mig hvað ég borða, uppá að það fari ekki í magann á henni. Ég þarf að passa að verða ekki of stressuð eða kvíðin því það gæti minnkað mjólkina, ég þarf alltaf að vera til taks ef hún skyldi verða svöng, skiptir ekki máli hvort það er í dýragarðinum í Slakka eða klukkan 4 á nóttunni heima. Stundum vill hún hanga á mér og þá ligg ég kannski í sófanum í 4, 5 eða 6 tíma í einu án þess að hreyfa mig. Ég fer ekki neitt í lengri tíma en 2 tíma án hennar til að vera viss um að hún verði ekki svöng á meðan ég er í burtu. Ég er ótrúlega bundin henni meðan hún er svona lítil og matartímunum hennar en ég myndi aldrei skipta þessu út. Auðvitað koma dagar þar sem mér finnst þetta ömurlegt og ég er orðin þreytt, mig langar bara að fara í bíó eða kannski sofa lengur en 3 tíma í einu á nóttunni en það kemur. Þetta líður hjá eins og allt annað og ég vill ekki hugsa til baka og hugsa að ég hefði átt að gefa mér meiri tíma. Ég er samt stöðugt með samviskubit yfir því hvernig þetta var með strákinn, mér finnst ég vera að gera upp á milli þeirra með því að reyna svona mikið með hana miðað við hvað ég gafst auðveldlega upp með hann því fyrir mig er þetta svo mikilvægt. Auðvitað fékk strákurinn alltaf að borða og var með hamingjusömustu börnum sem ég hef hitt en það breytir því ekki að ég er rosalega reið við sjálfan mig. En það sem er liðið er liðið og ég get allavegana sagt að ég viti betur núna og hafi alltaf og sé að gera mitt besta. Og á endanum er það það eina sem skiptir máli.

13882254_10154474930149885_7490521329770912136_n.jpg

Hér eru nokkrir punktar með því sem ég hef fundið að virki fyrir mig.

  • Vökvi vökvi vökvi. Án gríns, hafa vatnsflösku við höndina alltaf þegar þú gefur barninu að drekka – fátt meira pirrandi en þessi þorsti sem hellist yfir mann þegar barið er byrjað að drekka og engin vatnsflaska nálægt.
  • Að barnið taki brjóstið rétt alltaf. Ég veit að þegar barnið vaknar og er kannski brjálað úr svengd þá er rosalega freistandi að leyfa því bara að hálf opna munninn og draga geirvörtuna uppí sig einhvernveginn bara til að barnið hætti að öskra og fái að borða, en trúið mér, það borgar sig ekki til lengri tíma. Þetta myndband hér hjálpaði mér helling að læra að setja hana á alminnilega og afhverju það væri mikilvægt.
  • Að gefa ekki alltaf í sömu stellingu. Barnið tæmir mest þar sem hakan er, svo það er gott að gefa ekki alltaf í sömu stellingu. Ég læt Huldu oft “liggja” á maganum á maganum á mér og drekka svoleiðis, og svo er fótboltastellingin líka mjög vinsæl hjá okkur.
  • Eins mikil hvíld og mögulegt er. Þetta “sofðu þegar barnið sefur” á daginn virkar ekki þegar það er einn mjög aktívur 4 ára á heimilinu og almenn húsverk sem þarf að sinna. Hinsvegar er svefn og hvíld ekkert smá mikilvægur partur af þessu svo á kvöldin þegar barnið sofnar, ég reyni að horfa ekki á einn þátt í viðbót þó það sé freistandi.
  • Hafa barnið nálægt á nóttunni. Þegar Hólmgeir var lítill var hann í vöggu sem við rúlluðum alltaf milli á daginn og kvöldin og þá á næturnar þurfti ég að standa upp til að gefa honum. Gleymdu því að ég hafi nennt því aftur núna  – er með rimlarúm úr Ikea fast við hjónarúmið svo hún sefur við hliðiná mér. Þetta auðveldar næturnar all svakalega svo ég fæ meiri hvíld og hún sefur mun betur klesst uppvið mig (lesist alveg við brjóstið á mér og semi undir handakrikanum á mér, örugglega mjög næs þar sem ég svitna eins og íþróttamaður á nóttunni!). Næ ekki að koma því í orð hvað hvíld er mikilvæg.
  • Eins lítið stress og hægt er. Þó það sé ekki alltaf möguleiki er stress hrikalegt. Ég finn liggur við mjólkina minnka um leið og ég stressast upp (og ég er stressaða týpan fyrir allann peninginn) Fyrir mig virkaði mjólkuraukandi te-ið frá Weleda (fæst í apótekum) og Lactation Ease töflurnar frá Solaray (líka keypt í apóteki) en ég veit að það virkar ekki fyrir alla.
  • Sjálfsöryggi og markmið. Andlegt viðhorf skiptir öllu, ef þú telur þér trú um að mjólkin sé að minnka og þú getir þetta ekki nær það að síjast inn og púff. Mjólkin minnkar. Ég set mér lítil markmið, fyrst var það að komast í gegnum fyrstu vikuna. Svo fyrsta mánuðinn og núna er það alltaf mánuður í einu. Þetta er ekki spretthlaup, þetta tekur tíma og þá hjálpa litlu skrefin.

Þegar ég fékk stífluna hjálpaði að gefa mjög oft, það var óþæginlegt og ég er held ég komin með krónískann marblett á brjóstið þar sem hún á það til að verða rosa löt að opna munninn til að borða. Ég setti líka heitann bakstur fyrir gjöf (eins heitan og ég höndlaði) og nuddaði brjóstið smá með, gaf henni að drekka og nuddaði blettinn í átt að geirvörtunni og setti svo kaldann bakstur á eftir. Þó ég hafi aldrei náð að prófa sjálf þá hef ég heyrt að köld kál blöð séu alveg málið og brjóstagjafarráðgjafi sagði mér að sumir meiraðsegja frystu þau. Ef ég fæ stíflu aftur mun ég klárlega prófa það.

Þangað til næst !

undirskrift

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

1 Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *