Börnin okkar og dýr

Komandi úr sveit hef ég umgengist dýr allt mitt líf. Ekki bara kindur, hross og því fylgjandi heldur hef ég verið svo heppin að það hafa alltaf verið hundar (já og stundum kettir) heima hjá mömmu og pabba.

En útaf því að ég hef verið í kringum dýr alla mína ævi kann ég að umgangast þau. Og það er svo mikilvægt að kunna að umgangast dýr, þekkja merkin sem þau gefa þér svo þú getir hagað þér í samræmi við það – þannig geturðu hugsað best um dýrin þín. Og þessa reynslu og kunnáttu læt ég áfram til Hólmgeirs og Huldu. Það er ofboðslega mikilvægt að börn kunni að umgangast dýr, og þá sérstaklega að þau kunni að hætta. Heima hjá mömmu og pabba eru 3 frábærir (og alveg jafn pirrandi) hundar. 2 border collie hundar sem heita Skotta og Blíða og 1 gömul labrador tík sem heitir Anna. Hólmgeir hefur ekki þekkt neitt annað en að hafa hunda og ketti í lífinu sínu þar sem við sjálf eigum líka 2 ketti sem heita Vælubíllinn og Öxulhosa og höfum við unnið markvisst að því síðan hann var pínulítill að kenna honum hvernig hann á að haga sér í kringum dýr. Hann er ennþá að læra, stundum verða dýrin okkar þreytt á honum og láta það í ljós með greinilegum merkjum en því Hólmgeir er bara lítill 4 ára pjakkur þá skilur hann það ekki alltaf svo það er mitt starf að fylgjast með og segja honum til.

10312422_10154079757704885_6112926781914606747_n

Ef við tökum hundana sem dæmi, sér maður alveg greinilega hvenær þær eru búnar að fá nóg af hamaganginum í honum. Þær fara að annað hvort hlaupa undan honum (sem hann tekur á þann háttinn að þær séu að leika við hann, eh.. ) eða setja eyrun alveg aftur og skottið niður. Það eru skýr merki hjá þeim að þær séu búnar að fá nóg. Og þar sem þær geta ekki talað og sagt honum að hætta er mikilvægt fyrir Hólmgeir að sjá þessi merki og hætta sjálfur. Því þær hafa bara tennurnar til að verja sig ef þær hafa fengið meira en nóg. Eins höfum við reynt að kenna honum hvernig á að haga sér við ókunnug dýr, að ekki ana að ókunnugum hundum eða köttum sama hversu sæt þau séu því við þekkjum ekki þá hunda eða viðbrögð þeirra við honum. Og eins með kindur, hross og bara öll dýr.

13902686_10154496036619885_3554789392770356347_n

Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum að kettirnir hafa klórað í hann eða hundarnir hreinlega urrað á hann og hann verður rosalega sár en við útskýrum bara fyrir honum að þetta er það eina sem þær geta gert til að láta í ljós að þær vilji ekki meira. Hólmgeir er rosalega góður við dýr, og vill bara knúsa þau og kjassa en þarf að skilja líka að alveg eins og við – þá vilja stundum dýrin bara fá frið.

Það er svo góð gjöf ef börnin okkar hafa tækifæri til að alast upp í kringum dýr, en þá er nauðsynlegt að við kennum þeim rétt og rangt þegar kemur að því að umgangast þau.

Þangað til næst.

ingibjorg

p.s flestar myndirnar eru af Hólmgeir og Vælubílnum en hún er kisan hans og þau eiga í alveg einstöku sambandi. Við björguðum henni í gegnum Kisukot á Akureyri árið 2013 og sambandið þeirra hefur vaxið og dafnað og nú er það orðið svoleiðis að hún sefur uppí hjá honum á næturnar og fylgist vel með hverju einasta skrefi sem hann tekur.

10453326_10152515320124885_8959047714220102479_n

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *