Bónusforeldrar

Bónusforeldrar

Það er árið 2018 og fjölskyldur eru af öllum toga, börn eiga 2 mömmur, 2 pabba og allt þar á milli. Í daglegu tali er talað um alla bónus foreldra sem “stjúp”foreldra en ég persónulega er ekki hrifin af þessu orði. Mér finnst þetta ljótt orð og sérstaklega orðið “stjúpmamma” en þá hugsa ég bara um stjúpurnar í Disney ævintýrunum sem þoldu ekki stjúpbörnin sín og vildu pabbann fyrir sig eina. Ég kýs að nota orðið bónus frekar – finnst það hæfa betur.

Elskulegi Hólmgeir minn er einn af þessum ótrúlega heppnu börnum sem eiga bónusforeldra og með því eignaðist hann ennþá stærri fjölskyldu. Hann á mömmu og 2 pabba, 2 systkini, 6 ömmur og afa og endalaust af frænkum og frændum. Í mínum huga þýðir það bara eitt, hann á endalaust af fólki í kringum sig sem vilja honum einungis það besta og eru tilbúin að gera hvað sem er til að honum gangi og líði vel – og í Hólmgeirs huga þýðir það líka fleiri pakkar, 2 jól og þar eftir götunum og þegar maður er 6 ára þá er það basicly draumurinn.

Lengi vel þekkkti Hólmgeir engan sem átti eins fjölskyldu og hans, svo hann skildi þetta aldrei alveg, afhverju hann færi í pabba helgar og svo framvegis. Þetta allt saman hefur alls ekki verið auðvelt fyrir svona litla sál eins og sonur okkar er. Enn þann dag í dag spyr hann reglulega afhverju við getum ekki bara öll búið saman.

Ég kynntist Tryggva þegar Hólmgeir var 2 og hálfs árs, sem þýðir að hann er búinn að vera í lífinu hans síðan Hólmgeir man, hann þekkir ekki annað en að hafa Tryggva líka og frá degi 1 hefur Tryggvi tekið honum opnum örmum. Það leið ekki á löngu þar til Hólmgeir byrjaði að segja “pabbi” við Tryggva, en það var í flestum tilfellum bara eitthvað sem gerðist í hita augnabliksins og oftar en ekki leiðrétti hann sig. Það var aldrei neitt sem við ýttum á eftir eða sögðum honum að gera. Hann mætti bara kalla Tryggva það sem hann vildi og ef hann ákvað að hann vildi segja pabbi þá væri það frábært, ef ekki þá væri það alveg jafn frábært. Þegar ég varð ólétt að Huldu Maríu breyttust hlutirnir hinsvegar. Tryggvi varð pabbinn á heimilinu og þá byrjaði Hólmgeir að kalla hann Tryggva pabba sem síðar þróaðist svo í bara pabbi. Það hinsvegar hefur aldrei verið svoleiðis að þó hann kalli Tryggva pabba að hann viti ekki nákvæmlega hvernig sín fjölskylda er. Hann gerir vel greinarmun þarna á milli og hefur alltaf gert – þó í daglegu tali tali hann um þá með nöfnum svo maður viti nú hvern hann er að tala um hverju sinni.

En þetta hefur ekki alltaf gengið vel.

Staðreyndin er sú að það er drullu erfitt þegar 3 mjög ólíkir einstaklingar með mismunandi skoðanir á foreldrahlutverkinu reyna að ala upp barn saman. Ég veit eiginlega ekki hvenær þetta byrjaði að ganga betur, það var ekkert eitt sem gerðist, það var ekkert samtal – þetta fór bara að ganga betur og ég hef tekið eftir því að það gerir ótrúlega mikið fyrir Hólmgeir að við getum öll verið saman í herbergi og spjallað. Og það er akkúrat það eina sem skiptir máli, við erum jú öll með sama markmið. Að syni okkar líði betur og að hann vaxi og dafni.

Þangað til næst!

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: