“Slæma” Foreldrið

Þegar það kemur að uppeldi barna þá hefur hvert foreldri sínar eigin leiðir. Ég held samt að sameiginlegt markmið þeirra alla sé að sjálfsögðu að ala upp hamingjusama einstaklinga sem geta virkað vel í heiminum. Það er samt ekki auðvelt að ná því markmiði.

Fyrir utan þær væntingar sem við setjum á okkur sjálf sem foreldrar, þá eru ýmsar utanaðkomandi væntingar sem engin getur (því miður) verið 100% ónæmur fyrir. Allir hafa skoðanir á hvað er “rétt og rangt” að gera í uppeldi og oft er það þannig að þær aðferðir sem maður notar samsvara ekki aðferðum annara.

Ég sá frábæran post á Mæðra Tips þar sem mömmur voru hvattar til að deila öllu því “slæma” sem þær hafa gert, eins og gefið barninu kanilsnúða í kvöldmat því þær nenntu ekki að elda eða láta barnið í sömu fötin í nokkra daga í röð, semsagt allt í raun ekki slæmt heldur bara mannlegt.
Mér fannst ég knúin til að hrósa þeim öllum fyrir allt sem þær nefndu, því ekkert af því sem var nefnt var eitthvað sem foreldrar ættu að skammast sín fyrir.

Það var gott að lesa yfir þessi komment, það var gott að heyra af fleiri mömmum sem geta viðurkennt að þær eru ekki fullkomnar, því ég geri mikið af þessum hlutum og hef oftar en ekki fengið vægt (lesist sem: mikið) samviskubit yfir því.

Hvort sem fólk áttar sig á því eða ekki, þá er viss ímynd sem mikið af fólki vill að foreldrar falli inní.

  • Þú átt að ryksuga, skúra, þurrka af og þvo þvott, helst á hverjum degi, er það ekki normið? Passaðu þig samt að nota ekki þetta þvottaefni, notaðu frekar þetta lyktar- lit- og gleðilausa þvottaefni (afþví AUKAEFNI!) Guð forði nú barninu þínu frá djöflinum sem er RYK eða SKÍTUG FÖT. Nei allt nema það.

  • Þú átt að gefa barninu þínu að borða, það er sjálfsagt. Mundu samt að sykur = Satan, ekki viltu enda með ofvirkt barn? Einnig, ef barnið þitt borðar nammi, snakk, kex, súkkulaði og drekkur eitthvað annað en vatn (jafnvel bara stundum!) þá ættiru auðvitað bara að skammast þín og þú ert hræðilegt foreldri. (Er kaldhæðin ekki augljós?) Það geta að sjálfsögðu allar mömmur eldað kvöldmat alltaf, en ekki hvað ? Það hafa líka allar mömmur tíma á morgnana til að henda saman hollum morgunmat, er það ekki ?

  • Þú mátt bara leyfa barninu þínu að horfa ákveðið mikið eða ákveðið lengi á sjónvarp/ipad/síma. Já, það er líka auðvelt ! Hoppum yfir þá staðreynd að tæknin flæðir í kringum börnin okkar og ipadar eru meiraðsegja notaðir til ákveðnar kennslu í leikskólum. Tækni er óvinur og gerir börnin okkar að ósjálfsæðum og lötum haugum sem geta aldrei orðið neitt í lífinu !

  • Þú átt að leika við barnið þitt. Því allir fullorðnir einstaklingar elska (og hafa þolinmæði í) að sitja á gólfinu og láta hlaða fullt af dóti á sig (já ég skal sitja með dúkkuna, ég skal fá kórónu á hausinn, ég skal kubba með þér hús sem þú endar á að hrinda í gólfið áður en þú hleypur fram hlæjandi. Ég er sko ekki hlæjandi, veistu hvað þetta var flott hús?!)

  • Þú verður að hafa ofan af fyrir barninu þínu allan daginn, alla daga, alltaf. Ekki einu sinni láta það hvarfla að þér að kaupa þér frið með kexi til þess eins að komast á klósettið í friði, til þess eins að geta farið í sturtu án þess að það sé stanslaust barið á hurðina hjá þér, til þess að fá einfaldlega að setjast niður í smástund án þess að þurfa að svara sömu spurningunni aftur og aftur (Nei elskan, ég veit ekki afhverju það er vindur úti! Það er ekki eitthvað sem krefst ástæðu!!)

Ég gæti haldið áfram lengi, en ég held að þið fattið alveg hvað ég er að tala um.

Það er stundum ætlast til þess að foreldrar séu fullkomnir, en staðreyndin er sú að við erum það ekki og munum aldrei vera það sama hvað við reynum.

Þú munt sofa yfir þig, sem þýðir að barnið mun mæta seint í leikskólann/skólann.

Þú munt ekki alltaf nenna að elda, eða bara vita hvað þú átt að elda, sem þýðir að stundum er ónefndur fjöldi af símtölum til Dominos í símanum þínum eða það er gripið í jógúrt eða samlokur.

Það mun aldrei vera alltaf 100% hreint heima hjá þér, sem þýðir að barnið þitt mun komast í snertingu við ryk á meðan þú bugberst við að finna þolinmæði til þess eins að færa diskana af borðinu yfir í vaskinn.

Þú mátt leyfa barninu þínu að sitja bara og horfa á teiknimyndir, sem þýðir að barnið þitt verður ekki latur og gagnslaus einstaklingur. Þessi kríli eru á fullu allan daginn og stundum er allt í lagi að koma bara heim og setjast niður of horfa, það kallast að slaka á.

Þú munt ekki alltaf hafa þolinmæði (eða jafnvel löngun) til þess að leika við barnið þitt, sem þýðir að barnið þitt gæti lært að leika sér sjálft (sem er ekki slæmur hlutur). Ég veit að persónulega finnst mér skemmtilegra að elta stelpuna mína út um allt eða kitla hana og stríða henni og leika við hana þannig, heldur en að sitja með dót á gólfinu.

Þú munt kaupa þér frið með kexi eða einhverju álíka. Sem þýðir að þú gætir fengið smá frið til þess að gera það sem þú þarft að gera, eða bara til þess eins að setjast niður og draga andann. Því foreldrar þurfa stundum líka að draga andann.

Ég sit ekki hérna að þykjast vera einhver sérfræðingur í börnum. Ég er varla sérfræðingur í mínu eigin barni. Það eina sem ég veit fyrir víst er þetta: Á meðan barnið þitt er heilbrigt, hamingjusamt og er að þroskast vel, þá er engin ástæða til að skamma sjálfa þig fyrir að gera einn (eða alla) af þessum hlutum sem ég er búin að nefna.

Barnið þitt elskar þig ekkert minna þó þú nennir ekki að leika, þó þú endir á að hafa kleinuhring og kókómjólk í kvöldmat eða þó þú sért ekki búin að dauðhreinsa allt heimilið áður en það kemur heim. Þú ert ekki slæmt foreldri.

Það sem (ég held) að börnin okkar vilji er að við séum til staðar þegar þau þurfa á okkur að halda, að við sinnum grunnþörfum þeirra (matur, athygli, bleyjur/klósett, þak yfir höfuðið og svo framvegis.) Á meðan þú ert ekki að berja barnið blóðugt (eða bara berja það yfir höfuð) þá held ég að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur.

Eitthvað segir mér að barnið þitt sé hamingjusamast þegar það fær stórt og innilegt knús frá þér.

14199182_1696942750626591_1148798316643931273_n

Gefðu þér smá break, þú ert að gera þitt besta.

<3

Hafdis.jpg

Facebook Comments
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *