Betrumbætt samband

Fyrir ekkert svo löngu síðan skrifaði ég um hvernig ástandið var á sambandinu á milli mín og dóttur minnar. Hún var að taka tvö, stundum þrjú, reiðisköst á dag (sem stóðu oftar en ekki í 2+ klukkutíma) sem innihéldu öskur, tár, barsmíðar og gengu einu sinni það langt að hún náði að blóðga mig.

Ég var þó ekki saklaus í þessu, þar sem tilfinningastjórnun hefur ekki alltaf verið mín sterkasta hlið þá var ég fljót upp á móti í öskur og læti, sem að sjálfsögðu hjálpaði ekki neitt í þessum aðstæðum. Þetta endaði oftar en ekki í því að hún rotaðist úr þreytu í rúminu sínu eftir öll lætin og ég sat grátandi frammi í kvíðakasti og bullandi samviskubiti yfir því hvernig ástandið á heimilinu var orðið.

Í dag gleður mig að segja að það hefur margt breyst.

18157600_1839003519753846_670689343118924596_n

Eitt af því sem ég veit að hefur spilað hvað mest inn í breytingarnar er það að ég komst inn á PMTO foreldranámskeið, sem samanstendur af einum tíma í viku í 8 vikur, ég á bara einn tíma eftir.

Ég ætla ekki að fara að þylja upp allt námsefnið, en ég ætla að segja það að allir foreldrar, hvort sem þeir standa í erfiðum tímabilum eða ekki, ættu að reyna að komast inn á svona námskeið.

Á mínu námskeiði eru foreldrar með börn á öllum aldri og með allskonar hluti sem þau leita lausnar að.

Fyrst þegar ég gekk þarna inn þá leið mér næstum því eins og ég skammaðist mín, sem ég gerði í rauninni. Ég skammaðist mín fyrir hvernig hlutirnir voru orðnir og hvað þá sérstalega fyrir það að þriggja ára dóttir mín var farin að taka í lurginn á mér reglulega, bæði andlega og líkamlega.

En þetta var ekkert eins og ég hélt að þetta yrði, andrúmsloftið var fullt af skilning og stuðning og þegar maður talaði þá var hlustað.

Ég lærði helling sem ég hef tileinkað mér núna og helling sem ég mun geta gripið í þegar stelpan mín verður eldri.

Þú ert ekki dæmdur þarna.

Einnig var ótrúlegt að heyra hversu margir eru að eiga við svipuð vandamál og maður sjálfur var að eiga við, það er aldrei slæmt að vita að maður stendur ekki einn í því að átta sig á þessum litlu manneskjum sem maður bjó til.

Enda segir útkoman sig sjálf, sambandið okkar er allt annað í dag. Jú, hún tekur köst, en núna eru það ósköp venjuleg frekjuköst, eins og langflestir krakkar gera, ekki öskur og tár og ofbeldi. Plúsinn er þó bæði það að þetta er ekkert í líkingu við hvernig hún var og það að ég er ekki jafn hrædd við að tækla þessar aðstæður. Þetta hefur gefið mér aukið sjálfstraust sem foreldri og bara það eitt segir rosalega mikið.

18425160_1845884569065741_6893222629779365810_n

Ég er hætt að kvíða fyrir því að sækja hana í leikskólann af ótta við að hún taki kast í forstofunni fyrir framan alla aðra foreldrana, enda hefur hún ekki gert það í langan tíma.

Ég er hætt að þurfa að taka mér tíma til að “manna mig upp” í að fara að starta kvöldrútínunni, því oftar en ekki er hún farin að ganga eins og í sögu.

Allur dagurinn er farin að ganga eins og algjör draumur.

Ég veit það samt að þetta er eitthvað sem maður verður að halda við. Ég vil ekki að við endum aftur á þessum stað, því það leið engum vel þarna.

Ég er sjálfri mér þakklát fyrir að hafa fundið leið til að komast á þetta námskeið. Ég er þakklát þeim sem halda þetta námskeið fyrir skilning þeirra og hvatningu. Ég er þakklát hinum foreldrunum sem ég hitti á þessu námskeiði fyrir að deila sínum sögum og leyfa mér að læra af þeim. Ég er þakklát foreldrum mínum fyrir að passa litluna mína á meðan ég er á námskeiðinu. Ég er þakklát fyrir að hafa náð að sökkva mér í þetta eins mikið og ég gerði og þar af leiðandi náð að betrumbæta heimilið mitt enn meira.

Ég og stelpan mín áttum ekki bestu byrjunina saman, eins og langflestir vita, en í dag er það ekki sjáanlegt á okkur, þökk sé öllu yndislega fólkinu sem hefur hjálpað okkur og að sjálfsögðu þökk sé okkur sjálfum fyrir að vinna vinnuna sem þarf til að laga sambandið okkar.

<3

Hafdis.jpg

Facebook Comments
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *