„Að svæfa eða ekki svæfa?“

Mikið fer fyrir brjóstið á mér þegar foreldrar „svæfa” börnin sín… Þú ert náttúrulega að eyðileggja eðlilega svefnhegðun hjá barninu þínu með þessu uppátæki. Börn eru þannig gerð að þau geta auðveldlega sofnað af sjálfsdáðum …þangað til foreldrarnir grípa inn í!

Hvað er svo málið með að færa allt innbúið í tveggja metra hæð svo að handóðir puttar nái ekki í það?! Þvílíka vitleysan! Maður kennir auðvitað börnunum bara að greina á milli kristalsins og dublo kubbanna. Ef maður færir allt úr þeirra hæð munu þau aldrei læra!

Það er svo auðvelt að setja sjálfan sig í dómara sætið án þess að vita nokkuð um aðstæður hjá fólki. Börnin mín voru alltaf góð að fara sofa þegar komið var að háttatíma. Ég þurfti bara að breiða yfir þau sængina og bjóða góða nótt. Þess vegna þótti mér oft erfitt að skilja hvers vegna aðrir foreldrar voru að gera sér þann óleik að svæfa börnin sín …eða það sem verra var að leyfa þeim að sofa upp í hjónarúminu.

Sem betur fer verður maður reyndari með aldrinum og kannski örlítið vitrari (…sárabætur fyrir appelsínuhúðina á rassinum!). Í gegn um árin hef ég komist að því að ég hvorki veit né geri allt best eða réttast, gamla tuggan að enginn sé eins á alltaf jafn vel við og síðast en ekki síst þá kemur mér bara ekkert við hvernig annara manna börn falla í svefn á kvöldin.

Eins og ég sagði þá voru börnin mín alltaf góð að sofna á kvöldin …eldri börnin það er að segja. Yngsta dýrið sefur yfirleytt í mínu rúmi! Ég er samt ekki að gera neitt öðruvísi núna en fyrir 10 árum og ég er ekkert öðruvísi. Yngsta barnið er hins vegar allt öðruvísi en systkini sín.

Þá komum við að því að enginn sé eins og það er heila málið!

Það sem virkar fyrir einn virkar ekki fyrir annan og svo framvegis. Ég er í marga mánuði búin að berjast við yngsta barnið um að sofna í sínu rúmi vegna þess að ég var svo ákveðin í því að svoleiðis „ættu“ hlutirnir að vera. Að lokum gafst ég upp og lét eftir. Svona hlutir skipta nákvæmlega engu máli. Ég þekki ekki nokkurn einasta fullorðinn einstakling sem sefur ennþá upp í eða er tætandi skrautmuni úr hillum hjá fólki vegna þess að foreldrar hans færðu puntustellið hennar lang-ömmu úr seilingu þegar hann var óviti.

Við erum rosalega góð í að setja aðra í okkar eigin spor en eigum töluvert erfiðara með að setja okkur sjálf í spor annara. Reynum nú bara að vera svolítið góð hvert við annað.

Það er líka svo frelsandi að þurfa ekki að vera velta sér upp úr því sem aðrir eru að gera!

runa

Facebook Comments
Share:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *