Biðin eftir barni…

Biðin eftir barni…

 

Vikan fyrir settan dag var eitthvað svo spennandi. Meðganga númer tvö og ég vissi nokkurn veginn hvað væri í vændum. Barnið hafði skorðað sig og vel komið ofan í grindina. Ég var komin í veikindaleyfi og gat leyft mér að hvíla mig á daginn og taka svo á móti þriggja ára púkanum mínum eftir leikskóla. Ég gat andað betur og mér leið allri miklu betur þar sem ég gat hreyft mig og hvílt eftir þörfum. Allt sem ég sá fyrir að yrði þægilegt að hafa tilbúið fyrir fæðingu barnsins var nokkurn veginn tilbúið og ég var meira að segja nokkuð viss um að barnið kæmi í fyrri kanntinum, bara nákvæmlega eins og bróðir sinn.

Fyrri meðganga mín var ótrúlega þægileg. Einhverjir verkir en líkaminn vann vel með mér og andlega heilsan var uppá 10. Ég var ótrúlega spennt þegar við fengum að vita að litla barnið í maganum mínum væri strákur og það var í raun fyrst þá sem ég áttaði mig á því hvað væri í gangi. Ég var nefnilega lítið tengd því hvað væri í raun í gangi í líkamanum á þeim tímapunkti. Ekki tengd þeirri tilhugsun að ég væri að baka lítið barn sem ég myndi svo, rétt litlu síðar, bera fulla ábyrgð á og myndi í raun umturna lífi mínu, eins og börn gera jafnan.

Fæðingin gekk vonum framar, ég mallaði rólega af stað að morgni, var róleg heima þar til hríðarnar fóru að ágerast um miðnætti, keyrði upp á Akranes til að fæða tveimur tímum seinna án deyfingar og lítils skaða.

Þegar ég svo varð ófrísk aftur fyrir 9 mánuðum var ég þyngri, bæði líkamlega og andlega. Ég átti annað barn fyrir sem lífið snérist um og ansi fljótt fór ég að finna fyrir orkuleysi og meðgönguógleði. Ég bjóst samt alltaf við því að ég væri í raun að fara að ganga í gegnum það sama og síðast, allt nokkurnvegin eins.

Þegar við mættum í 20 vikna sónarinn sá ég fyrir að við myndum sjá lítinn tippaling á skjánum. En svo var aldeilis ekki. Það kom í ljós að lítil prinsessa væri á leiðinni og aftur voru ákveðin kaflaskil í meðgöngunni hjá mér. Með þessum nýju upplýsingum áttaði ég mig á því að það væri í raun annar einstaklingur á leiðinni, ekki aftur sama barnið – ekki sama meðganga.

 

Seinni meðgangan var á allan hátt stærra verkefni, meiri verkir, þyngri hugur og meira umfang í lífinu. Gleðin yfir komandi lífi var líka töluvert meiri þar sem ég vissi hvað var framundan. Ég varð fljótt svo spennt að tíminn leið hægt og það fer mér misvel að vera óþolinmóð. Ég hlakkaði til að sjá hvernig trítlan myndi líta út, hvernig bróðir hennar myndi taka henni og sjá systur hennar halda utan um hana og vernda.

 

Þegar fór að styttast í enda meðgöngunnar var spennan orðin ansi mikil. Settur dagur var í augnsýn og aftur fór hugurinn þá leið að þetta yrði alveg eins og síðast. Barnið kæmi rétt fyrir settan dag, allt yrði klárt og fæðingin easy breasy (eins og mögulegt getur orðið í fæðingu).

Nú sit ég hér daginn eftir settan dag og ekkert að gerast. Ég viðurkenni að kroppurinn er orðin mjög fyrirferðamikill, úthaldið lítið og allt löngu klárt. Mér finnst ég hafa beðið endalaust. Fæðingartími, fæðingarstaður, fæðingin sjálf enn óljós og þolinmæðin svo sannarlega ekki mín sterkasta hlið. Hversu mikla óvissu getur maður þolað og í hvað langan tíma?

Ætla að leyfa ykkur að bíða spennt með mér og hlakka til að fagna nýju trítlunni minni með ykkur þegar hún mætir. Þá með glænýja fæðingarsögu, því jú… hver fæðing er víst einstök.

 

Author Profile

Lára

Lára er 33 ára móðir og eiginkona búsett í Reykjanesbæ. Hún á dreng fæddan í maí 2016 og bíður spennt eftir lítilli stúlku sem áætluð er í heiminn í janúar 2020. Hún er leikskólakennari með mikinn áhuga á uppbyggingu og kennslu ungra barna. Önnur áhugamál er handverk, móðurhlutverkið, allt sem lítur að lífsstíl – líkamlegri og andlegri heilsu.


Facebook Comments