Barnaherbergi – FYRIR OG EFTIR MYNDIR

Yes!
Loksins er herbergið hans Hólmgeirs nokkurn veginn tilbúið.
Ég gerði allt sjálf, keypti allt sjálf og svo framvegis – er eingöngu að deila með ykkur hamingjunni minni yfir því að vera loksins búin að losna við þessa tvo mismunandi bláu liti úr herberginu. Já þið lásuð rétt – það voru 2 mismunandi tónar af bláum í herberginu, ég hélt reyndar að annar þeirra hefði verið fjólublár en svo var víst ekki.

Hér er herbergið fyrir;

Ég byrjaði á því að mála allt herbergið hvítt, ég þurfti að mála 3 eða 4 umferðir útaf því að þessi bévítans blái litur skein alltaf í gegn og loftið 2x og hendurnar voru eftir því þegar ég kláraði – dofnar og tilfinningalausar. Ég var ekki að passa listana eða parketið neitt brjálæðislega þar sem þetta parket verður ekki mikið lengur á gólfinu sorry memmig. (Chopchop Tryggvi, mamma þarf nýtt parket!)

Hér er svo herbergið eftir breytingar!

Ég keypti hillurnar í Ikea og hann átti dótakassana fyrir og lampinn er gamall lampi sem Hólmgeir hefur tekið ástfóstri við. Disney bækurnar í hillunni hans eru allar Disney bækurnar sem ég átti sem krakki og það yljar mér um hjartarætur að hann sé að lesa sömu bækur og ég las. Við keyptum rúmið hans Hólmgeirs í rúmfatalagernum fyrr í ár en við ákváðum að hann væri alveg tilbúinn í alvöru fullorðins rúm, svona þar sem hann er eins og þyrluspaði í svefni þá dugar ekkert minna, einnig eru körfurnar í fataskápnum hans úr rúmfatalagernum en ég keypti eins handa Huldu Maríu í kommóðuna hennar. Límmiðarnir eru svo frá AliExpress en þið finnið þá hér og hér.

Ég málaði skápinn inni hjá honum alveg hvítan og Tryggvi boraði upp hillur sem við keyptum í Húsasmiðjunni undir fötin hans Hólmgeirs þar sem það voru engar hillur í skápnum fyrir (og já, það er mjög skrýtið!). Hillan sem er á veggnum undir Króna sparibauknum og ýtunni er úr búð á Húsavík sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað nafnið á.

Eins og glöggir sjá líka er trommusett inni hja drengnum en við gáfum honum það í jólagjöf í fyrra, það fékkst þá í Toys’r’us en ég veit ekki hvort að það sé enn fáanlegt. Það pirrar mig ekki jafn mikið og ég hélt að hlusta á hann tromma – mér finnst það notarlegt orðið.

Um daginn fékk Hólmgeir svo falleg Lego Batman sængurföt sem auðvitað fóru beint í notkun og er öruggt að segja að hann sé alveg jafn glaður og ég með þessa breytingu!

Þangað til næst.

Ingibjörg.jpg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: