Afmælishelgin mín

Afmælishelgin mín

Ég er mikið afmælisbarn og átti ég 29 ára afmæli þann 11.maí. Í fyrra skrifaði ég smá færslu um afmælishelgina mína sem mér fannst mjög skemmtilegt að geta skoðað eftir á, svo ég ákvað að gera slíkt hið sama í ár (og kannski árin eftir það, hver veit!). Ég var gífurlega heppin með veður þennan dag, og bíð ég spennt eftir því að fá að sjá aðeins meira af þessari gulu (plíís).

Við Biggi kíktum í hádegismat á Kringlutorg en þar er einn af mínum uppáhalds veitingastöðum, Jömm. Ég held að flestir grænkerar á Íslandi kannist nú þegar við Jömm en í fyrra sumar voru þau með aðstöðu í matarmarkaðnum í Skeifunni. Við tók langur vetur án Jömms og var því mikil gleði þegar þau opnuðu aftur, og á svona aðgengilegum stað. Mittislínan mín og veskið eru mögulega ekki á sama máli en ég er allavega mjög ánægð með þessa viðbót í grænkera flóruna. Á myndinni má einnig sjá blómkáls taco frá Kore (sem er við hliðina við Jömm) en ég var mjög ánægð að fá matinn í stál dall sem þeir nýta aftur og svo mætti ég að sjálfsögðu  með nestisbox undir Jömmið.

Biggi gaf mér þessa æðislegu strigaskó frá merkinu Veja en vörumerkið er bæði umhverfisvænt (nota mikið af endurunnum efnum), sanngjarnt við þá einstaklinga sem starfa við framleiðsluna og með mjög gott úrval af grænkera vænum skóm. Hægt er að panta Veja skó hér, en einnig fæst nokkuð úrval af grænkera vænum útgáfum í ORG.

 

Einnig fékk ég þessi æðislegu SNURK hvala rúmföt úr GOTS vottaðri bómull. Það sem fólkið mitt þekkir mig vel! (já, ég tók ekki til á náttborðinu áður en ég smellti mynd..).

 

Ég var svo heppin að vikulegur sannleikskubbur á vegum Anonymous for the Voiceless var á afmælisdaginn minn þannig að ég mætti í stuttan kubb.  Anonymous for the Voiceless er dýraréttinda samtök sem sérhæfa sig í götu aðgerðarstefnu. Með notkun á staðbundnu myndrænu efni sem sýnir staðlað verklag, er opinberað fyrir almenningi það sem viljandi er falið fyrir þeim í ferlinu við hagnýtingu dýra. Einstaklingar sem stoppa við og horfa á myndböndin hafa val á að spjalla við einn af sjálfboðaliðum AV sem getur gefið þeim ýmsar upplýsingar um iðnaðinn ásamt því hvernig hægt er að skipta yfir í vegan lífsstíl. Sannleikskubbar í Reykjavík eru vikulegir, ýmist á laugardögum eða sunnudögum, og tek ég reglulega þátt.

Ég hef átt mörg gífurlega góð samtöl í gegnum þennan aktivisma og finnst mér ómetanlegt að vera til staðar fyrir einstaklinga sem eru að sjá hörmungar á bak við eldisdýraiðnaðinn og hagnýtingu dýra, stundum í fyrsta skiptið. Ef þú ert grænkeri og langar að taka þátt eða sjá betur hvernig þetta virkar þá mæli ég með facebook hópnum AV: Reykjavík.

 

Næst var ferðinni heitið á afmælishátíð/árshátíð en svo vildi til að vinnustaður minn átti einnig afmæli þessa helgi svo það var tilvalið að skella sér í slíka skemmtun með góðum vina hópi. Við skemmtum okkur gífurlega vel, maturinn var mjög góður (gleymdi þó að taka myndir af réttunum) en Ari Eldjárn og Hraðfréttar gaurarnir sáu til þess að hláturinn væri ekki langt undan.

Ég reyndist vera óvart í stíl við bakgrunninn..

 

Daginn eftir hélt ég fyrirlestur á viðburði Misturs sem haldinn var í Yogasmiðjunni um ruslfrían (zero waste) og ruslminni (low waste) lífsstíl. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég hélt svona fyrirlestur og ég viðurkenni að ég var vissulega svolítið stressuð fyrir honum. Þetta var þó gífurlega skemmtilegt, ég er virkilega þakklát að fá að ræða um málefni sem skiptir mig svo miklu máli og vona ég að ég fái fleiri tækifæri til þess í framtíðinni. Það er alltaf gaman að fara út fyrir þægindarramann og prófa nýja hluti!

 

Einnig er ég gífurlega þakklát fyrir 29 árin og held ég ótrauð áfram með gleði og von í hjarta.

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments