Af strákum og hárinu þeirra.

Þegar ég sá Hólmgeir Loga í fyrsta skipti fannst mér merkilegt hvað hann var með mikið hár, ég hafði ekki mikið pælt í ungabörnum eða börnum yfir höfuð og ég vissi ekki að börn gætu fæðst með svona fallegan lubba og varð um leið ástfangin af hárinu hans. Það var slímugt og allt útí fósturfitu og blóði en guð minn góður þetta voru fallegustu lokkar sem ég hefði nokkurntímann séð. Það voru margir sem sögðu mér að hann myndi missa hárið og ég ætti að raka þetta af, það yrði jafnara og fallegra. Hinsvegar datt það ekki af og ég fékk mig aldrei til þess að raka það af heldur leyfði ég því bara að vaxa þrátt fyrir mótmæli annarra. Hann var samt bara nokkra mánaða þegar hann fór í fyrstu klippinguna en þá lét ég undan og hárið hans var snyrt. Ég persónulega sá ekki neina breytingu á hárinu hans eftir það, það óx ekkert hraðar en eftir því sem tíminn leið og þegar hárið fór að síkka byrjaði ég að fá fleiri athugasemdir um hárið hans, jafnvel frá fólki sem við þekktum ekki.

“Hann er nú svolítið stelpulegur með allt þetta hár”
“Þarf hann ekki að fara að fara í klippingu drengurinn?”
“Hann sér ekki neitt! Þetta er alltaf í augunum á honum!”

Alltaf hristi ég þessar athugasemdir af mér. Hárið skyldi fá að vaxa þar til hann sjálfur vildi fara í klippingu. Ef það var heitt eða hárið var í augunum á honum setti ég bara teygju í það og drengurinn alsæll með það – honum fannst æði að fá teygju og finnst það enn, hann hefur meiri segja orðið mjög dapur eftir að hárið hefur verið klippt reglulega því þá nær það ekki í teygju (og reynd þú að útskýra það fyrir sorgmæddu 4 ára barni að það geti ekki fengið teygju því hárið er of stutt. Ef þú getur það án þess að raka hárið þitt af, bara til að barnið geti haft eitthvað í teygju ertu guð og mátt koma í heimsókn til mín reglulega)

Á þessum 4 árum sem Hólmgeir hefur verið til hefur hann skartað ýmiskonar hárgreiðslum, sumarið 2014 var hann með man bun greiðsluna (því við taðtopparnir fylgjum nefnilega öllum helstu tískutrendum sem stinga upp kollinum!) sumarið í fyrra var hann með hanakamb, og svo hefur hann verið stuttklipptur og snoðaður – hann hefur gert það allt saman.  En, það sem mér finnst mikilvægast er að í flestum tilfellum hefur hann verið með klippingu sem HANN vill eða sem HANN biður um. Honum fannst til dæmis æðislegt að  vera með hanakamb, rokkarinn sem hann er og afhverju fannst honum það svona æðislegt? Já því Villi í Villa og Sveppa er með hanakamb. Nú er hann með ósköp venjulegt hár, hann fer í klippingu þegar hann biður um og þegar hann hefur farið í klippingu hjá mér fær hann þá klippingu sem hann biður um. Athugasemdirnar hafa samt ekki hætt, ef hann er ekki klipptur stutt og helst bara nýkominn úr klippingu þá fæ ég, já eða hann að heyra það. Hann þurfi að fara í klippingu því hárið er orðið svo “sítt”.

Nú á ég líka stelpu (sem fæddist með alveg jafn mikinn lubba og bróðir sinn) og þó hún sé bara 6 vikna veit ég fyrir víst að ég á ekki eftir að fá þessar athugasemdir með hennar hár, þar sem hún er stelpa. Ef ég set teygju í það verður það bara krúttlegt, ef það er slegið verður það fallegt. Kannski mun hún vilja stutt hár, og þá fær hún stutt hár. En hún fær að ráða, þangað til hún getur sagt hvað hún vill fær hárið hinsvegar að vaxa.

Hólmgeir Logi er núna full fær um að velja klippingu fyrir sig. Til dæmis horfðum við á heilar tvær myndir um Villa og Sveppa í morgun (hey, það er sumarfrí, þá má stundum smá) og þegar ég var að lesa fyrir hann áður en hann fór að sofa í kvöld þá bað hann mig um að raka á sér hausinn alveg eins og Villi er með. Ég svaraði honum að ef hann vildi það þá gæti ég gert það í fyrramálið þegar hann vaknar. Svo á morgun þegar við vöknum spyr ég hann aftur (ef hann er ekki búinn að minnast á það) hvort hann vilji að ég raki hárið, ef hann segir já – þá er rakvélin hlaðin. Ef hann segir nei, þá er það bara þannig. Hann ræður. Það er fyrir mig allavegana það sem þetta snýst um, að leyfa honum að ráða. Við leggjum mikið uppúr því að kenna börnum að þau eigi líkamann sinn sjálf – afhverju gildir þá annað um hárið á þeim?

Þangað til næst!

undirskrift

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *