Að ganga í gegn um fósturmissi – mín reynsla

Að ganga í gegn um fósturmissi – mín reynsla

Ég sit hér og skrifa þessa færslu því mér finnst ekki rætt nógu mikið um þetta í dag. Ég er ekki að reyna að ýta fólki út í óþægilegar umræður sem það vill ekki eiga, heldur er ég aðeins að reyna að segja frá minni reynslu og vonandi opna fyrir sársaukafullt en mikilvægt umræðuefni því þögnin getur verið ansi sár.Núna hefur verið mikið í umræðunni konur, ungar konur og þeirra ákvarðanir varðandi barneignir. Ég var ein af þeim sem vildi ekki eignast börn yfir höfuð.

 

Í febrúar árið 2015 komst ég að því að ég væri ólétt. 

Þær voru margar og blendnar tilfininngarnar sem ég fann fyrir á þeim tímapunkti. Þarna var ég aðallega hrædd, hrædd við að þurfa að segja kærastanum mínum að ég væri ekki tilbúin að eignast þetta barn. Það versta við þetta allt saman var að ég fékk ekki að taka ákvörðun um hvort ég vildi eignast barnið eða ekki, sú ákvörðun var tekin af mér.

Við förum í sónar snemma um morguninn og við vorum bæði frekar þung, það var skítakuldi úti og slabb á götunni og fullt af konum á biðstofunni. Ég heyrði eina tala um að hún væri komin 18 vikur á leið og fengi bráðum að vita kynið, en þetta væri í þriðja skiptið sem hún og maðurinn hennar væru að reyna, hin tvö hafði hún misst. Ég man líka hversu óþægilega mér leið að heyra þetta. Ég hugsaði hvers vegna hún væri að deila þessu með ókunnugu fólki á biðstofu, en núna skil ég. En aftur að minni sögu. Við fórum inn og allt í kring um þessa læknisheimsókn var mjög óþægilegt og ég vissi ekki afhverju. Ég er skoðuð og læknirinn kallar á annan lækni. Eftir dágóða stund er mér sagt að ég sé að öllum líkindum ekki ólétt því það sjáist ekkert í leginu. En ég sjálf vissi það að ég var barnshafandi. Líkami minn sagði mér það. Í kjölfar þessarar skoðunar er ég send í blóðprufu, látin pissa í glas og send leiðar minnar.

Ég er svo í hádegismat í vinnunni þegar það er hringt í mig frá spítalanum… Það kom í ljós að ég var með utanlegs fóstur og komin næstum 3 mánuði á leið. Það voru miklar bólgur í eggjaleiðaranum og ég átti að koma í aðgerð. Jújú, ekkert mál segi ég, hvernig hljómar á morgun? ég er nefninlega í vinnunni og þarf að redda mér fríi. Nei, ekki seinna en strax. Ég fer og næ í kærasta minn sem skutlar mér á kvennadeildina og skilur við mig þar. Svo tók biðin við. Ég var lögð inn um 13:30 og átti að fara í aðgerð milli 19:00 og 20:00 og ég hafði allan þennan tíma til að velta fyrir mér hvað ef? Hvað ef þetta væri eina tækifærið mitt til að eignast barn? Það er vert að taka það fram að samkvæmt læknum átti ég ekki að geta eignast barn án aðstoðar og þess vegna var þetta visst sjokk. Að liggja ein með hugsunum mínum í 5 tíma tók verulega á. Mér fannst ég svo alein, mér fannst ég eiga að bera þetta allt saman ein. ÉG sendi kærastann minn heim og sagði að allt væri í lagi og hann fór loksins eftir að hafa spurt mig þúsund sinnum hvort allt væri í lagi. ÉG kaus að segja ekki vinkonum mínum né mömmu. ÉG kaus að bera þetta ein. Ég viðurkenni það að mér fannst ég algjör auli að sakna einhvers sem aldrei var, að gráta eitthvað sem aldrei var til. Og ég grét. Ein inná skurðstofunni grét ég. Svo var ég svæfð, vaknaði og allt var eins og áður. Ég var ekki leið, sagði ég. Það var allt í góðu, sagði ég. En ég missti eitthvað sem ég vissi ekki að ég þráði svona heitt, og það tók sinn toll. Í mínu tilfelli þá skammaðist ég mín. Mér leið eins og ég væri unglingur sem hafi ekki passað nógu vel uppá getnaðarvarnir, mér leið eins og ég hefði kallað þetta yfir mig með því að íhuga fóstureyðingu. Þetta sat í mér.

Eftir þetta tókum við ákvörðun um að ef ég yrði ófrísk aftur, sama hvort tíminn hentaði ekki eða sama hvað þá myndum við eignast barn. Og viti menn níu mánuðum seinna verð ég ófrísk aftur. Í dag eigum við yndislegan dreng og við gætum ekki mögulega verið hamingjusamari. Ég gæti ekki mögulega verið heppnari með litlu fjölskylduna mína. <3

Eins og ég sagði hér fyrir ofan þá er ekki auðvelt að tala um missi. Sama hvernig missir það er. En ég hef kosið að deila minni reynslu með ykkur kæru lesendur því ég veit hversu sárt það getur verið að byrgja allt inni og bera sorgina einn. Það hjálpar alltaf að tala um hlutina.

efesf

Ástar þakki fyrir að lesa og þangað til næst <3

Facebook Comments

Share: