Að elska sjálfan sig, það er fyrir alla.

Á netinu eru til ógrynni af reynslusögum kvenna sem hafa átt börn. Hvernig þær lærðu að elska líkamann sinn sem breyttist svo mikið á meðgöngu, líkamann sem teygðist og slitnaði í allar áttir. Líkamann sem þær voru byrjaðar að hata og þurftu að læra að elska uppá nýtt með öllum þeim förum, slitum og auka kílóum sem kannski fylgdu.

Ég elska að lesa svoleiðis sögur, í alvörunni. Það tekur styrk og metnað í að læra að elska eitthvað sem þú einu sinni hataðir og þoldir kannski ekki einu sinni að sjá í spegli.

Ég er ekki ein af þessum konum.

Ég slitnaði ekkert, ég fékk engin för eða auka kíló, ég tók ekki einu sinni úr naflalokkana mína. Í raun sést ekki á mér að ég hafi gengið með 2 börn. En það breytir því samt ekki að 77 vikum af ævinni minni hef ég eytt í það að ganga með börn. Ég upplifði svefnlausu næturnar af verkjum, endalausu spörkin niður í grindina og uppí rifbein (ó guð gefi mér styrk, fæ hroll niður í hæla við tilhugsunina um þessi spörk. Enginn bumbusöknuður hér!) – ég upplifði hikstann og það að ég mátti ekki hnerra án þess að pissa smá á mig. Ég upplifði þetta allt saman alveg eins og allar hinar. Eini munurinn er að það sést ekki að ég hafi gengið með börn.

Reyndar sást það varla á meðan ég var ólétt heldur þar sem ég fékk varla bumbu – á hvorugum meðgöngunum mínum. Fólk var mjög mikið að gera athugasemdir um það á meðan ég var ólétt, ég væri svo heppin hvað ég væri nett, ég hlyti nú varla að finna fyrir því að vera ólétt. Það sem þetta fólk vissi ekki var að kannski svaf ég ekkert nóttina áður, eða kannski grét ég mig í svefn því ég gat ekki komið mér fyrir án þess að finna til. Þó ég væri með litla bumbu.

Þegar ég var svo búin að eiga, í bæði skiptin, byrjuðu athugasemdirnar aftur.

“Vá bíddu varstu ekki að eiga barn?”
“Ég trúi nú varla að þú hafir gengið með þetta barn”

Sem dæmi fór ég núna þegar Hulda María fæddist á sumarhátíð leikskólans hjá Hólmgeir, því ég vildi taka þátt og var varla búin að eyða tíma með honum síðan Hulda fæddist. Hulda María var 5 daga gömul þegar ég fór og nánast hver einn og einasti starfsmaður fann sig knúinn til að koma með athugasemd um það afhverju ég væri komin á lappir og hvort ég væri alveg viss um að ég hefði verið að eiga barn. Þetta var allt vel meint og ekkert á bakvið þetta en ég er búin að heyra þetta svo oft. Ég skil þetta, ég lít ekki út fyrir að hafa átt börn.

En – hér er það skemmtilega.
Það er eins og það sé ætlast til þess að ég sé ánægð með það hvernig ég lít út, án þess að sýna það. Það er eins og ég eigi að vera þakklát fyrir að vera heppin með gen (takk mamma, þú ert frábær!), án þess að segja neitt um það upphátt. Það er eins og ég eigi að vera ánægð í hljóði, helst að mótmæla þessum hrósum eða hrista þau af mér því það eru svo margar aðrar konur sem hafa það verra, eins og það ógildi það á einhvern hátt að ég megi vera stolt. Tala nú ekki um það ef að ég minnist á það að vera ánægð með líkamann minn er ég talin of sjálfsörugg sem er ekki líðandi í nútímasamfélagi þar sem okkur er daglega sagt að við eigum að vilja vera betri, fallegri, við séum ekki nógu góðar.

Ég er ánægð, ég er ekkert smá ánægð í rauninni. Því ég er mjög heppin. Ekki bara 1 heldur 2 gullfalleg pínu lítil börn uxu inní mér í 77 vikur. Ekki bara 1 barn heldur 2 voru skorin uppúr mér meðan ég lá hreyfingarlaus á skurðborði, í annað skiptið því ég þurfti þess – í hitt því ég valdi það.

Ég er heppin, og ég er hamingjusöm með líkamann minn.

Og ég má vera það, ég má vera stolt alveg eins og allar hinar konurnar. Ég má elska líkamann minn alveg eins og allar hinar konurnar og ég þarf ekkert að skammast mín fyrir það.

undirskrift

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

1 Comment

Leave a Reply to Lesandi Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *