Að eiga barn sem ekki sefur

Ímyndaðu þér þetta.

Klukkan er að ganga 5 og þú ert búin að ganga um gólf síðan fyrir miðnætti með ungabarn sem er úrvinda af þreytu en vill ekki sofa og grætur bara. Þú ert sjálf orðin einhver skel af manneskju af svefnleysi og þreytu og kvíðir fyrir því að þurfa að vakna eftir rúma 2 tíma með eldra barninu. Baugarnir ná orðið langt niður á kinnar og eru orðnir að þessum regnboga af fjólubláum og dökkbrúnum litum, andardrátturinn þinn er stöðugt mengaður af kaffilykt og þú manst ekki hvenær þú hafðir síðast tilfinningu í höndum eða fótum. Og það er nákvæmlega ekkert sem þú getur gert til að róa barnið þangað til það dettur út af þreytu. Skemmtileg tilhugsun?

Svona var þetta búið að vera í 7 mánuði. Flest kvöld. Ég hafði skrifað þetta á hina ýmsu vaxtar og þroskakippi, kennt því um að Hulda María sofnaði í 20 mínútur eftir kvöldmat eða eins og á tímabili, talið mér trú um að ég hafi gert eitthvað virkilega slæmt í fyrra lífi til að eiga þetta skilið, þið vitið – stigið á hvolp eða eitthvað. Það er erfitt að eiga barn sem ekki sefur, og þó að það sé eðlilegt að foreldrar ungabarna missi ákveðið mikið magn af svefn er ekkert eðlilegt við það hvað Hulda María er búin að sofa lítið síðan hún fæddist. Hún fæddist, vakti mjög mikið daginn sem hún fæddist og svo hefur hún bara verið svoleiðs – vakandi.

Þetta tekur á öll þín sambönd, ekki bara við maka heldur við önnur börn á heimilinu, foreldra þína, vini – alla sem þú getur hugsað þér, meiraðsegja dýrin. Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið á stofugólfinu um miðjar nætur og grátið með henni. Grátið frá mér allt vit af þreytu og ergelsi. Og svo fæ ég gnístandi samviskubit í hverja einustu taug í líkamanum, ég veit þó allavegana hvernig ég á að tjá tilfinningarnar mínar. Ég veit afhverju mér líður svona. Hulda býr ekki yfir þeim “lúxus”. Hún veit bara að hún er þreytt eða henni líður illa og hennar eina leið til þess að tjá sig er að gráta eða gefa frá sér hljóð.

unspecified-4

Ég neitaði því lengi frameftir að mér liði illa útaf þessu, ef ég minntist á það við einhvern fékk ég iðulega það svar að svona væri þetta bara – foreldrar væru þreyttir og það væru svo margir sem hefðu það miklu verr en ég! Ég hummaði það alltaf fram af mér að fara til læknis og loksins viðurkenna það að ég þjáðist af fæðingarþunglyndi. Ég líka lengi hélt að þetta væri ekki fæðingarþunglyndi en ég fékk mjög alvarlegt fæðingarþunglyndi með Hólmgeir. Þetta var allt öðruvísi núna, ég er hamingjusöm – bara þreytt, vonlaus. Eins og hefur komið fram í svo mörgum pistlum frá svo mörgum konum er alltaf þessi hugsun, “ég hef ekkert til þess að líða illa útaf”, ég meina, ég á frábær börn, yndislegann mann, þak yfir höfuðið og mat á borðinu – en ég á barn sem sefur ekki. Svefnleysi yfir ákveðinn punkt er ákveðinn kvöl fyrir líkamann, líkamleg kvöl. Það sem mér finnst öllu verra er andlega kvölin sem fylgir líka. Suma daga næ ég í einhverju maníu kasti að komast í gegnum daginn án þess að líða eins og gagnslausu húsgagni því orkan hreinlega leyfir ekki neitt umfram það að hugsa um Huldu. En flesta daga er það ekki svo gott. Flesta daga á ég erfitt með að fara fram úr rúminu.

Þetta bitnar líka ofboðslega á Hólmgeir, óviljandi að sjálfsögðu. Þráðurinn minn er styttri, ég eyði miklum tíma í að svæfa Huldu Maríu eða þá að það mega ekki vera læti því ég loksins náði að svæfa Huldu Maríu, því hún þarf að sofa. Síðustu 7 mánuði hefur okkar líf snúist um svefninn hennar Huldu Maríu, það sem við gerum eða hvert við förum hefur allt verið skipulagt út frá henni. Það er ekki fyrir 4 ára lítinn strák að skilja þetta allt saman. “Það er stundum erfitt að vera stóri bróðir” sagði hann um daginn. Eins og blaut tuska í andlitið sem það var. Ég vissi að hann gerði sér alveg grein fyrir því hvað það fer mikill tími og orka í systur hans, en þarna kom það flatt uppá mig. “Það er stundum erfitt að vera stóri bróðir” – ég á eftir að muna þessi orð það sem eftir er, þau eru brennimerkt í hjartað mitt og hug.

Þetta hefur aðeins breyst síðustu 10-14 dagana eða svo. Núna tekst mér yfirleitt að koma henni í ró milli 22.30 og 23.30, ég þarf reyndar að fara að sofa með henni en svefn er svefn og ég finn strax muninn. Ég er léttari á mér, glaðari og tillitssamari gagnvart þeim í kringum mig. Svefn er mikilvægur, og vanmetinn. Ég er ekki að biðja um að ég fái að sofa út á hverjum einasta degi, bara að við fáum að sofa um nóttina. Ef þreytt foreldri minnist á það að vera þreytt, ekki gera lítið úr því. Ekki segja að þau hafi ákveðið að eignast barn og þetta séu bara afleiðingarnar eða að allir foreldrar séu þreyttir. Sýndu þeim frekar skilning og stuðning.

Stuðningur og skilningur goes a long way nefnilega.

 

Ingibjörg.jpg

Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share:

3 Comments

 1. Elisabet Anna Helgadóttir
  February 7, 2017 / 12:46 am

  Vá ég varð bara að skrifa.. Ég skil þig svo innilega af öllu hjarta! Dóttir mín var svona, grét frá 23 -5 og stundum alveg til 7.. og ég var orðin svona eins og þú! Alveg búin á því.. Hún fékk lyfið Vallergan núna þegar hún varð 18 mánaða og hefur sofið vel síðan 🙂 mæli ekki með því að bíða svo lengi með að fa einhverja hjálp til að bæta svefninn.. svefn er nauðsynlegur og alls ekki nóg að sofa 2 tíma á sólarhring! Vonandi sefur hún áfram vel og þú líka 🙂

  • Erla
   February 8, 2017 / 8:49 am

   já alveg rétt, valergan, minn fékk það líka, man enn þá fyrsta kvöldið ! þvílíkur léttir, ! hann þurfti þetta líka bara í nokkrar vikur, bara til að brjóta upp vanann….

 2. Erla
  February 7, 2017 / 8:51 am

  úff I feel your pain, strákurinn minn var líka svona… fór ekki að sofa almennilega fyrr en um 4 ára aldurinn.
  Þetta eldist að minnsta kosti af henni, einhverntíman…. er fólk í kringum þig sem getur aðstoðað ? svo þú getir lagt þig eða eitthvað, og hjálpað með stóra brósa 🙂
  Gangi þér vel og vonandi fer þetta að lagast 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *