6 mánaðar fataverslunar fasta – ég er hálfnuð!

6 mánaðar fataverslunar fasta – ég er hálfnuð!

Það eru rúmlega 3 mánuðir síðan ég hóf 6 mánaða fataverslunar föstuna mína sem þýðir að ég er meira en hálfnuð með hana! Fyrsti mánuðurinn var klárlega erfiðastur, og ég viðurkenni að janúar er kannski ekki auðveldasti mánuðurinn til þess að hefja svona föstu þar sem flestar verslanir eru með útsölu og bomba á neytendur auglýsingum og afsláttarkóðum hér og þar. Fyrsti mánuðurinn leið því hægt, ég þurfti að taka einn dag í einu, anda djúft mjög reglulega og loka vefsíðunni sem ég var að skoða. Febrúar gekk betur en samt sem áður með löngunum hér og þar, það kom þó oftar upp að ég hugsaði ekki um föt í nokkra daga í röð – þvílíkt frelsi!

Ég veit að þetta kann að hljóma furðulega fyrir þeim sem hafa kannski lítinn áhuga á fötum eða tísku, eða eru ekki föst í hringiðum neyslusamfélagsins og alls áreitis sem því fylgir. Þetta kallar svo sannarlega á hugarfarsbreytingu og slíkt getur tekið tíma að öðlast. Mars mánuður gekk mjög hratt fyrir sig, ég var hreinlega hissa á því hvað tíminn flaug án þess að ég hafi íhugað nokkur fatakaup. Það koma auðvitað nokkur skipti inn á milli þar sem ég sé eitthvað sem mér finnst fallegt og langar svolítið í, en oftast nær staldrar sú hugsun stutt við þar sem mig skortir ekkert og ég veit alveg að ég er ekki að fara að versla í bráð.

Ég hef samt sem áður náð að hala inn nokkrum nýjum flíkum og ætla því að skrá hérna þær aðferðir sem ég hef farið eftir hingað til, bæði til þess að hrista upp á fataskápinn og þegar ég þurfti að stoppa mig þegar verslunar löngunin var alveg að gera út af við mig:

  • Ég tók fljótlega þátt í 10×10 áskorun eftir að fataverslunarfastan byrjaði en það finnst mér alltaf skemmtilegt, ég fann upp á nokkrum nýjum leiðum til þess að para saman flíkur sem ég átti sem er virkilega skemmtilegt. Það er líka alltaf gleði eftir þessa 10 daga að eiga úr meiru að velja en 10 flíkur. Lesa má um 10×10 áskorunina hér.
  • Ég efndi til fataskipta við góða vinkonu sem var nýlega búin að “Kon-Mariea” fataskápinn sinn. Ég mætti með nokkrar flíkur sem ég var hætt að nota og fékk nokkrar hjá henni í staðin, meðal annars gallabuxur sem ég er svo hrikalega ánægð með að ég nota þær gífurlega mikið. Fjársjóðir leynast víða!
  • Ég passaði auðvitað upp á að sem flestir vissu af þessari fataverslunarföstu en ekki einungis bloggaði ég um hana, fjallaði um á instagram, sagði nánustu vinum og fjölskyldu frá heldur rataði téð umræða einnig í fréttamiðlana. Ég viðurkenni að það hjálpar gífurlega að halda sér á beinu brautinni að hafa einhvern sem veit af þessu og getur haldið manni “accountable”.

  • Ég átti nokkur erfið móment þar sem mig langaði ROSALEGA í ákveðna flík eða ákveðið skópar, téð flík/skópar var grænkeravæn, sanngjörn og allt það sem ég leitast eftir, ég gat endalaust borið rök fyrir slíkum kaupum og jafnvel gekk svo langt að hvísla að mér “get ég ekki bara verslað þessa vöru í leyni?”. JÁ, ég fór þangað, hversu sturlað? En tilgangurinn með þessari færslu er að vera hreinskilin um ferlið, eins og ég nefndi í fyrstu færslu minni um föstuna þá er þetta kannski ekki hefðbundin fíkn hjá mér en eðlileg neysla fannst mér þetta ekki. Á þessum augnablikum var gott að segja mömmu og vinkonum mínum frá þessu – að ég væri alveg að gefa undan, og jafnvel sína þeim vöruna sem ég var svo stutt frá því að versla. Það hjálpaði mikið að tala um það, og þær auðvitað peppuðum mig til þess að halda föstunni áfram.
  • Ég fór á fataskiptimarkað. Þann 6.apríl var norræni fataskiptidagurinn eða Nordic swap day svo það voru haldnir fatamarkaðir á Íslandi á nokkrum stöðum. Ég fór með nokkrar flíkur (sem vinkona mín tók ekki) á markaðinn og tók með mér einn bol heim.
  • Ég fékk einnig nokkrar flíkur lánaðar hjá mömmu minni til þess að hressa upp á fataskápinn, ef maður er ekki alveg til í fataskipti þá getur lán fyrir sérstök tilefni eða ef einstaklingur er þreyttur á flík (en vill samt fá hana aftur síðar) þá getur lán sín á milli verið sniðugt.

  • Ég hlaut einnig nýjar gallabuxur frá MUD og sumarkjól frá People Tree í gegnum samstarf. Þetta er vissulega ekki á færi margra og er ég gífurlega þakklát fyrir þau tækifæri sem ég fæ í gegnum bloggið og mína samfélagsmiðla, ég reyni að sjálfsögðu að nota rödd mína ávalt til góðs, til fræðslu og í fullri hreinskilni. Ég er ekki að taka samstarfið fram heldur til þess að núa einhverjum um nasir heldur til þess að vera 100% hreinskilin með það að þó að ég hafi verið í fataverslunarföstu í 3 mánuði – þá rötuðu samt sem áður nokkrar flíkur inn í fataskápinn minn sem voru þar ekki áður.
  • Ég lagaði flíkur! Ég bjóst heldur betur ekki við því, en eins og ég nefndi í færslunni “lífið undanfarið” þá saumaði ég hnapp á skirtu sem hafði dottið af, og saumaði uppáhalds sokkabuxurnar mínar þar sem gat varið komið í eina tána.

Þessi fataverslunarfasta hefur gert mér gífurlega gott og hjálpað mér töluvert að endurstilla hugarfar mitt gagnvart tísku, sóunn, umhverfi okkar og þeim sem framleiða flíkurnar. Ég viðurkenni að ég farin að hlakka til þess að ljúka föstunni, löngunin til þess að versla er ekki farin en hún hefur breyst og minnkað töluvert. Í stað þess að hugsa um það að versla nánast daglega, og í stað þess að verða alltaf að vera með flíkur á “óskalistanum” svo ég viti hvað ég ætli að versla næst, þá hlakka ég meira til þess að nýta mér verslanir sem selja notaðar flíkur betur og ýta þannig undir sjálfbært hringrásarferli. Héðan í frá verður markmiðið því að versla fyrst og fremst notaðar flíkur, með örfáum undantekningum.

Ég kann einnig að meta fataskápinn minn svo miklu betur, ég fæ síður leið á honum og hefur þetta verið gott tækifæri til þess að vera útsjónarsamari og prófa fleiri útfærslur með flíkurnar mínar. Er ég enn stressuð að ég muni springa og maxa vísa kortið mitt þegar þessir 6 mánuðir eru liðnir? Nei, ég sé ekki fram á að það muni gerast en ég viðurkenni að ég fæ á tilfinninguna að ég muni líklegast versla nokkrar flíkur eða fylgihluti. Þegar maður verslar ekki í einhvern tíma og virkilega nýtir fataskápinn sinn þá fer maður að átta sig á því hvað gæti raunverulega verið gott að bæta í flóruna og hvað hentar mínum eigin stíl og lífsstíl, í staðin fyrir að vilja bara versla eitthvað.

Ég ætla að setja mér markmið að byrja hægt og varlega, og verða öll kaup vel ígrunduð. Svona fatafasta er ekki skyndilausn við hugarfari sem hefur tekið mörg ár að mótast en hefur hjálpað mér gífurlega, og mæli ég vissulega með því að prófa. Fataföstu minni líkur formlega 1.júlí og mér finnst hreinlega rosalegt hvað tíminn hefur flogið! Einn af stærstu kostunum við föstuna er að ég hef einhvern veginn meiri tíma til þess að einbeita mér að verkefnum sem eru mér kær og mikilvæg, þegar ég er ekki stanslaust að renna í gegnum fatasíðurnar eða skella mér í Kringluna. Hugur minn er svo mikið frjálsari, og þar af leiðandi meira skapandi!

Ég vona innilega að þið hafið haft gaman af því að fylgjast með og munið halda því áfram, en ég set inn update af og til á instagram síðu mína, ásamt fleiri ráðum að umhverfisvænni lífsstíl.

Þar til næst!

 

Author Profile

Amanda

Amanda er vegan stelpa sem starfar sem lyfjafræðingur og elskar að borða góðan mat. Áhugamál eru eldamennska, hreyfing, heimilið, sanngjörn tíska (fyrir dýr og menn), umhverfisvernd og ýmislegt tengt lífsstíl.


Facebook Comments