12 hugmyndir að öðruvísi stefnumótum

12 hugmyndir að öðruvísi stefnumótum

Við þekkjum öll þessar helstu hugmyndir að stefnumótum – út að borða, bíó, ísbíltúr, göngutúr og svo framvegis. Eða, þið… Við Tryggvi förum ekki mikið á stefnumót. EN.
Ég tók saman nokkrar fleiri, pínu öðruvísi hugmyndir og langar að deila með ykkur.

 • Skoða nytjamarkaði saman, Kolaportið, Góða Hirðinn, Hertex eða aðrar sambærilegar verslanir. Ég lifi fyrir þessa staði, það er næstum alltaf hægt að finna eitthvað fallegt þar.
 • Fara á línuskauta. Við Tryggvi prófuðum þetta þegar við bjuggum í Hafnarfirði, þetta var geðveikt! Keyptum okkur akkúrat línuskrauta í Góða Hirðinum.
 • Baka saman. Til dæmis á góðum sunnudagsmorgni er hægt að skella í pönnuköku brunch eða síðdeigis hnallþóru.
 • Keyra um og skoða falleg hús, þetta er í sérstöku uppáhaldi fyrir fasteignaperrann sem ég er og í kringum jólin er hægt að skoða jólaskreytingarnar.
 • Fara í sund saman, skellið ykkur í rennibrautina, það er mikilvægt að rækta barnið í sér og við Tryggvi erum mjög dugleg í því!
 • Búa til Óskaafrek (bucket list), bæði fyrir ykkur í sitthvoru lagi og sem par.
 • Spila á spil, hvort sem það er á venjuleg spil eða borðspil eða jafnvel púsla. Enn betra ef keppnisskapið er mikið og þið komist einhversstaðar í Hættuspilið.
 • Byggið virki í stofunni og horfið á mynd – án gríns, þetta hljómar eins og eitthvað sem þú myndir gera með börnunum þínum, en ég lofa. Þetta verður yndislegt.
 • Farið saman í ræktina. Það er kannski ekki aðlaðandi fyrir marga að vera sveitt saman í ræktinni að lyfta með tilheyrandi svipbrigðum, en þetta eru aðal deitin okkar Tryggva, þegar hann er í landi. Við förum á hverjum morgni saman í ræktina – það er bara notarlegt að vera nálægt hvort öðru en ekki endilega vera að tala saman.
 • Farið snemma í náttföt, græið ykkur morgunmat í kvöldmat og fáið ykkur morgunmat í rúmið meðan þið horfið á uppáhalds þáttinn ykkar eða myndina.
 • Hverfið aftur í tímann og gerið einfaldar, en skemmtilegar tilraunir heima við. Á mínu heimili er Vísindabók Villa til – hugsa að við finnum eitthvað skemmtilegt úr henni í næsta fríi hjá Tryggva!
 • Það gæti einnig verið mjög gaman að sjá hversu hugmyndarík þið getið orðið. Setjði ykkur tíma og peningamörk, farið í næstu verslunarmiðstöð og kaupið gjöf handa hvort öðru sem tengist hinu á einhvern hátt.

Svo er hægt að taka íspinna prik, skrifa 1 stefnumót á hvert prik og setja í krukku. Svo þegar þið hafið tíma fyrir stefnumót skiptist þið á að draga prik úr krukkunni. Ég sá einhversstaðar að einhver gerði svona krukku og litaði prikin eftir því hvað stefnumótin voru dýr svo hægt væri að velja stefnumót eftir fjárhag hverju sinni.

Vonandi kemur þetta að góðum notum fyrir einhvern og þið finnið stefnumót sem hentar ykkur!


Author Profile

Ingibjörg Eyfjörð

Ingibjörg Eyfjörð er búsett í Mývatnssveit ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur óbilandi áhuga á heimilinu (nema þrifum, hún er með bráðaofnæmi fyrir þeim), förðun og öllu sem er aðeins út fyrir kassann. Skrif hennar einkennast af hreinskilni, kímnigáfu og harkalegum staðreyndum um hið daglega líf.


Facebook Comments

Share: